Færsluflokkur: Bækur

Snjór og kuldi hvernig er með það ?

 fjorulist

Það er annars undarlegt hvað það kemur manni alltaf á óvart þegar fer að snjóa og vetur skellur á.  Ekki eins og hafa ekki upplifað þetta áður, en það er ótrúlegt hvað maður er fljótur að gleyma  ( sem betur fer ).  Set hér inn gamalt ljóð frá mér sem ég nefni  Árstíðir.

 

                 

 

 

 

         Árstíðir

 

Er ég einn með þér

eina stund að lifa

sjá hvar þú kemur og ferð

hvernig klukkur tímans áfram tifa.

 

Fas þitt fegurð er

frjálst þér að hlýða

en andlit þitt aldrei fer

aldin fagri allra tíða.

 

En hvað hvetur þig

hversu sem árin líða

veturinn er samur við sig

sjálfum sér illur að hlýða.

 

þú veitir, þú tekur

þú ástríka hljóða gyðja

farfugla frjálsa hingað glepur

framverðir norðurs þig tilbiðja.

 

Lát mér ljúka þér upp

lyftu mér hærra til skýja

þar sem dysjað er þitt kumbl

þangað dreymir mig að flýja.

 

             Ólafur H. Einarsson 1980

 

Ég hef um nokkurt skeið ekki ritað mikið hér inn á bloggið og vil ég þakka öllum þeim mörgu sem reglulega líta inn á vefsíðu mína fyrir þolinmæðina.


Páskahret og gamalt ljóð

HPIM2163Var hugsað til litlu fuglana sem lifa þennan ótrúlega íslenska vetur.  Hef haft tök á að fylgjast með Snjótittlingum héðan að heiman eins og gengur.  Þá rifjaðist upp fyrir mér gamalt ljóð eftir mig frá 1976 sem ég set hér inn.  Ég kallaði það ,, Þú litli vinur " sem skírir sig sjálft. 

 

Þú litli vinur

Nú blikar á breiðum fanna

með blæfegurð af dansi ljósa

en úti er kuldinn að kanna

kæfa landið og frjósa.

 

Það lætur í verkum vinda

veröldin af háflæði snýr

kjarrið keppist við að linda

kápuna sem vetur til býr.

 

En mitt í miðju kófi

mjór og lítill fugl

söng sem í stóru hófi

snjótittlings vetrar gull.

 

Visinn var vetrar maginn

vonin í brjósti bjó

undir snjó var undra haginn

uggandi söng að sló.

 

Kalt er því að kyngja

kólnaði fljótt hans blóð

náttúran náljóð sín að syngja

nísti hjartað við hinn síðasta óð.

 

         Ólafur H. Einarsson 1976


KEA kaupir Hafnarstræti 98 - gömlu húsi bjargað

HPIM4830Það voru góð tíðindi að norðan í dag.  KEA ásamt fleiri fjárfestum hafa keypt húsið að Hafnarstræti 98.  Húsið hefur verið nokkuð bitbein á liðnum misserum.  Húsafriðunarnefnd lagði til friðun á húsinu sem menntamálaráðherra samþykkti.  Þetta var nokkuð umdeild ákvörðun, en sýndi dirfsku ráðherra; þökk sé henni.  Árið 2006 var ég á ferðinni þarna og tók nokkra myndir í göngugötunni.  Þetta verður sóma hús þegar það hefur verið endurgert.  Ég spái því að eftir nokkur ár muni menn undra að til stóð að rífa þetta hús.  Reyndar hef ég gist í þessu húsi, var á ráðstefnu á Akureyri og gisti einar tvær nætur.  Það eru reyndar blendnar tilfinningar vegna þess að í næsta húsi var brjálaður skemmtistaður sem hélt vöku fyrir manni hálfa nóttina.  Loks óska ég Akureyringum sem hafa skilning á verndun eldri húsa til hamingju með þennan áfanga og daginn.
mbl.is KEA kaupir Hafnarstræti 98
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár !

Óska þeim er lesa bloggsíðu mína og bloggvinum árs og friðar.  Læt með ljósmyndir frá áramótum.

HPIM1349

 

Einnig  hér fylgir gamalt ljóð um áramótin, frá mér sem ég gerði um ármótin 1975-76.

 

Áramótakveðja

 

Árs og friðar árna ég

árin heilla líða

veraldarinnar vandratað fé

vegsemda erfitt að bíða.

 

Trú og tilbeiðsla göfgi þig

tárin gullnu dvína

þá er þroski eflist við

þrautir hverfa og pína.

 

Lifðu svo lengi og vel

láttu andann vaxa

bróðurhug já bræðraþel

bæti allar heimsins axa.

 

      Ólafur H. Einarsson 1975

axa = axarsköft   HPIM1362

 

 

 

 

 

Skotið í rokinu

 

 

 

 

 Álfar áttu líka sín áramót.

HPIM1378

 

 


Gleðileg jól

Óska ykkur öllum Gleðilegra jóla og þakka ykkur mörgum sem hafa

heimsótt bloggsíðu mín á liðnum mánuðum.  Megi friður og kærleikur

jólanna fylgja ykkur.  Guð blessi ykkur öll !

 

 


Veiðisögurnar hans Bubba Morthens - nýja bókin

scan0003

 

Nýlega var mér gefin bókin hans Bubba Morthens með langa bókartitlinum : Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð.  Þegar ég heyrði fyrst af þessari bók þá skellti ég í góminn, hvernig ætli kappinn sé á ritvellinum ?  Nú, eftir að ég eignaðist bókina, lagðist ég yfir hana og ég verð að segja að hún kemur á óvart.  Þá er rétt að taka fram að ég er með ólæknandi veiðidellu líkt og höfundurinn. 

Bókin er mjög skemmtileg, stuttar sögur með ljóðrænum texta; nákvæmlega eins og mér finnst að það eigi að vera.  Það er nefnilega ljóðrænt að vera að veiða við ár eða vötn í okkar blessaða landi.  Ég hef orðað það þannig að verða drukkinn af landinu.  Þetta er held ég líka að sé  upplifun Bubba Morthens, á hans hátt.  Þetta eru fallegar náttúru upplifanir og skemmtilegar sögur af fólki og veiðifélögum höfundar. 

Fyrir þá sem enn halda að veiðimennska sé bara ómerkilegt dráp þá ætti þessi bók að opna augun fyrir því gagnstæða.  Ég held að bókin skilji ekki við neinn ósnortinn og hreint út sagt er hún yndisleg.  Það er því við hæfi að óska Bubba til hamingju með þessa bók.  Það er aðeins ein saga í þessari bók sem mér finnst ekki ríma í þessum ljóðræna stíl.  Silja Aðalsteinsdóttir er ritstjóri bókarinnar og er það trúleg styrkur verksins að hún er þar með.

Ég vil hvetja Bubba Morthens til að skrifa meira í þessum stíl, fleiri veiðibækur.  Eftir að ég hafði lesið bókina var ég með heitstrengingar, um að hnýta mikið af flugum og nota veturinn betur til að vera undirbúin fyrir næsta sumar.  Af þessu leiðir að bókin hefur virkað á mig.  Þá vil ég ráðleggja þeim sem lesa bókina, af minni reynslu að lesa svona tvær sögur í einu.  Þetta er eins og eiga konfektkassa og fá sér einn og einn mola til þess að hann endist lengur.

Bókin er að ég held mjög góð gjöf hvort tilefnið eru jól, afmælisdagur eða annað til að gleðja aðra.  Hún einfaldlega er áfram í huganum og lofar komandi veiðisumar.  Náttúrulýsingar og einlægni er styrkur bókarinnar og ef einhver hefur ást á viðfangsefninu þá er það hin eini sanni Bubbi Morthens.  Til hamingju með bókina.


Haustþræðir

 HPIM0609

Vegna margra velunnara síðu minnar vil ég láta að vita af mér, en vegna veikinda og sjúkrahúsvistar hafa ekki verið færslur á síðuna frá því í byrjun sept. s.l.  Ég vil þakka þeim sem líta inn og skoða gamlar færslur fyrir þolinmæði og áhuga.  Þar sem enn um sinn verður frekar litið að gerast á síðunni set ég inn gamalt ljóð frá mér um haustið.  Það nefnist Haustþræðir.

 

Haustþræðir

Þá leið þetta sumar

og söngurinn góði

því það lofaði reyndar allt,

en skyndilega hvarf það

og aftur var kalt;

mófuglar horfnir

en morgunsvalinn andaði stríður.

 

En rósin í garðinum

draup höfði sínu

er austan slagregnið

teygði runnans greinar

og haustið lagðist að

í garðinn og sálina,

en purpuralitaður himininn

málaði síðasta vanga sumarsins.

                       Ólafur H. Einarsson 1979

 

 


Lokum fyrir þverun Lönguhlíðar á Miklabraut

Minni á bloggfærslu mína um að koma í veg fyrir þverun Lönguhlíðar á Miklabraut.

http://ofansveitamadur.blog.is/blog/ofansveitamadur/entry/311399/

 

 


mbl.is Umferðartafirnar hefjast stundvíslega klukkan 7:40
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar minningar

Ég sá þig er minningarljóð sem ég samdi 2001.  Það er tregi og eftirsjá í þessu eins og í lífinu.  Best að ljóðmyndin tali sjálf.

 

Ég sá þig

 

Ég sá þig um daginn

þinn síðasta vinnudag

er stóðst þú við skugga gluggann

og sumarið var farið

af suðurgluggum sumra húsa.

Þú laust þínu höfði

lítið eitt í kjöltu þér,

en vagninn leið áfram hratt

hjá löngu förnum götum

sem mörkuðu sporin þín.

 

           Ólafur H. Einarsson 2001

HPIM2741


Meira af Vatnsdalnum í Húnavatnssýslu

Stenst ekki mátið og verð að deila með ykkur fleiri fallegum myndum úr Vatnsdalnum.  Jörundarfellið sem blasir við Flóðið er höfuðprýði sveitarinnar.  Vatnsdalshólar með sýnu fallega líparíti.  Í Másstaðaskriðum er mikið af jaspis, hrafntinnu, silfurbergi o.s.f.v.  Fuglalíf er þar einstak.  Á haustkvöldum og morgnum syngja hundruðin af álftum og gæsum.  Það var erfitt að sofa á morgnana þarna, morgunsinfónían var byrjuð upp úr fimm.  Allstaðar er sagan nálæg, sem er efni í mikla færslu.  En látum myndirnar tala.

HPIM2557

 

 

 

 

Hnjúkurinn og í fjarska ber Víðdalsfjallið.

 

 

 

 

 

HPIM2491

 

 

 

Grímstunga í Vatnsdal, h.m. ber í Hjarðartungu sem er reist upp úr 1960.

 

 

 

 

 

 HPIM2516

 

 

Kirkjan að Undirfelli.

 

 

 

 

 

 

 

 HPIM2526

 

 

 

 

  Hvammur í Vatnsdal.  Er hægt að hugsa sér fallegra bæjarstæði.

 

 

 

 

HPIM2545

 

 

 

 

Kunnuglegir fuglar í dalnum.

 

 

 

 

 

Eins og sjá má af þessum myndum hefur Vatnsdalurinn upp á mikið að bjóða.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband