7.5.2007 | 17:17
Gamlar og nýjar hugrenningar um vorið
12. apríl 2005.
Ég sit hérna og það eru 50 metrar í stofnbrautina þar sem umferðin yðar allan daginn. Horfi á trén og grasið sem er að vakna undan vetri. Krókusar kíkja upp úr moldinni og blöð Túlipna og Páskaliljanna er græn og þróttmikil. Moldin í beðunum er rauðsprungin og úfin, en lífvana. Þá kemur þessi skógarþröstur og horfir á mig. Ég horfi á hann og við ákveðum að þetta geti verið í lagi. Hann hoppar um grasið horfir í svörðinn og síðan á mig. Hvað ertu að gera hérna heyri ég rödd frá honum. Ég trúi varla mínum eigin eyrum, en svara samt. Nú líklega að fanga vorið svara ég svona til að segja eitthvað.
Trúir þú á þetta vor segir þrösturinn. Eftir stutta þögn svara ég. Eiginlega ekki. Já ég vissi það svarar hann, þess vegna er vorið ekki komið. Ég er vorið og nú fer ég og kem aftur eftir 10 daga eða eftir næsta norðan áhlaup. Fuglinn hefur sig til flugs og skýst á milli greinanna og hverfur síðan. Ég hef setið hér síðustu daga, en vorið lætur lítið á sér kræla. Þrestirnir sem fljúga um garðinn við stofnbrautina brosa af mér, því ég trúi ekki enn á þetta vor, en það kemur víst að lokum og matartíminn er liðinn.
15. apríl 2005
Póesía dagsins er lífið ástin, kærleikurinn og allt það. Annars skín sólin og allt er bjart og fagurt, eiginlega skil ég ekki hvað ég er að fara með þessu. Hvaða máli skiptir það svo sem þegar öllu er á botninn hvolft. Sólin skín og ég veit að það eitt skiptir máli. Ég klíp sjálfan mig svona til að vera viss um að ég sé til, öðru hvoru og minni mig stöðugt á að þegar ég vaknaði í morgun þá var ég ekki til.
16. apríl 2005
Ég líð eftir Vesturlandsveginum á 80 km hraða og er farþegi í bíl. Eins og í ljóði lít ég til hliðar í áttina að skógræktinni í Hamrahlíð. Augun skotra í leiðinni á hitaveitustokkinn sem ber milli skógræktarinnar og Hamrahlíðarinnar þar sem þenslustykkin eru falin, undir steinsteyptum stokknum. Ofar við himnasýn er þungbúinn skýjabakki, með slútandi regndropum sem hamastvið að hanga í festunni sem bindur skýin saman. Skyndilega festast augun við fyrsta fífil sumarsins, útsprunginn með 5 blómkrónur. Blöðin græn og fersk hlaðin orku vorsins sem enn er ekki vakið. Gul blómkróna blómanna æpir út í vorið, flýtið ykkur annars missið þið af þessu öllu hér hraðbrautar draugar og blikkbeljur.Ég á tímann og tíminn á mig hér í hlíðinni, í þenslustykkinu sem falið er í stokknum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Ljóð | Breytt 15.5.2007 kl. 16:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.