15.5.2007 | 23:22
Miðlægur vandi ára minna
Þegar ég var að verða fimmtugur svona fyrir nokkrum árum eða þar um bil fór ég að hugsa um þessi tímamót. Það hafði verið mikil umræða um stöðu konurnar og allt það. Við karlarnir sátum sem sneyptir hundar yfir öllu þessu óréttlæti sem við höfðum beitt konur í gegnum tíðina. Á leið minni út úr bænum fór ég að hugsa um þetta allt og þá varð til þetta ljóð sem hér kemur á eftir. Þá sá ég í huga mér hvernig líðan kynbræðra minna væri, hálf rislítið og lífið að fjara út. Þetta er í gamansömum tón með alvarlegu ívafi. Ég hef alltaf séð fyrir mér að Árni Tryggvason leikari myndi flytja þetta ljóð, enda var það að hluta til samið með þeim hrynjanda sem hann les. Ljóðið kalla ég Miðaldra.
Miðaldra
REQUIEM
Miðlægur vandi ára minna
er útlægur vandi hára minna
sálin er sjúk og lúin
sjálfur kroppurinn fúinn,
belgist til beggja hliða
svo brjóst ungra kvenna iða
andinn er ávalt reiðubúinn
þótt árans standurinn sé niðursnúinn
nema að hann snúi upp.
Þá er það blessað baslið
bíllinn ónýti og draslið
konan er löngu farin
líka var hún barin,
en börnin uxu úr grasi
Bergur, Sveinn og Þrasi
afglapans arfleiddi lyndið
alveg eins og erfðasyndin.
Löngu er ég hættur að skrifa
letina á ég fyrir að lifa
kötturinn og kaffidrykkur
er köllun mín og búhnykkur,
en sjónvarpið ég sit við lengi
sjálfa Gufuna ekki tengi
vona að lífinu vísast senn ljúki
viðundrið ég sjálfur fjúki
um himnana sjaldséðu sali.
Þá á ég þessa einu von
að hitta þann blessaða son
sem Jósef smiður kenndi
og séra Hallgrímur umvermdi
kærleika og Krists orðum
á Hvalfjarðarströnd hér forðum
og Gudda sem guðlausa Tyrki
gabbaði, ég þá um hana yrki
er sólin við himnahliðið hnígur.
En verst er að vita ei lengur
hvernig veröldin snýst og gengur
er sólroði fer um suðrænar lendur
og sár mín gróa og hendur.
Fer þá sá gamli góði mig að vekja,
mun hann þá mig aftur hrekja
í heiminn hans gamla láta
og gera mig að eilífðarskáta
sem hættur er alveg að kvarta.
Orð mín er óræðin ræða
sem ólmast í mér og hræða
hvern þann sem kann þetta að lesa
mig nú karlægan lúsablesa,
velta úr mínu vílaða fleti
þann voða, ég nefni ekki fretið
hrotur og hægða vandinn
þó háttstemmdur væri andinn
las ég Tolstoy og Dostzeviski.
Nábjargir fékk ég nánast engar
og munntóbakið sem mengar
nærði sálina illa
sem orsakaði útferð og kvilla,
en læknar mig löngum kvöldu
og liðagiktina í mér öldu
við Penisinlín og pilluátið
ég Postulasöguna hefði betur í mig látið
af öllum heimsins veigum.
Og svo er ég farin að leiða og kvíða
löstum og öðrum daglegum líðan
ég nenni ekki neitt út úr húsi
né öðru daglegu stússi,
en það er komin hér ný kona
sem kann um að búa og ég vona
að geti mig gamlan stutt
á vatnsalernið flutt
svo hætti ég annars staðar að losa.
Já mitt fúla en fjölgerða stúss
var frjókorn þess jarðar trúss
er ég batt í mínum móður kviði
þótt ég mannleysis braginn fyrir liði
frá minni fyrstu helgu tíð
þá herjaði hér stríð,
en blessuð sértu mín blíða móðir
er barst mig á norðurslóðir
og vötnin og fjöllin mér gafst.
Ólafur H. Einarsson 1998
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.