4.6.2007 | 20:57
Ljóðið Kona og enn um miðbæinn
Það ætlar að ganga illa að hætta að vera í miðbænum með hugsanir sínar. Ég læt hugann reika til Reykjavíkur þegar allt var einhvern veginn hægara ( 1955 - 1960 ). Tíminn var held ég öðruvísi svo undarlega sem það hljómar. Umferðin minni, fasið öðruvísi. Eitthvað í þessa veru er minningin og andrúmsloftið í ljóðinu sem hér kemur á eftir þótt ég hafi samið það löngu síðar. Ég nefni ljóðið ,,Kona".
Kona
Strætisvagnar standa í röð
straumlínulagaðir árið 1955
í október á Lækjartorgi
og lúnir farþegar líta á klukkuna
sem aldrei gengur rétt,
en bílstjórinn sveiflar peningabauknum
í hendi sér á leið í vagninn,
hann býður góðan daginn
um leið og hann horfir yfir farþegana.
Vagninn líður af stað
með rykkjum og skrykkjum
og Bretamalbikið á Lækjargötu
bungast undan hjólunum
enda komið til ára sinna.
Vagnstjórinn kallar hátt og skírt
Rauðará og menn líta hver á annan
um leið og smápeningar skella
á tómum botni bauksins,
en vélarkrafturinn hríslast um bílinn.
En ég gleymi aldrei
konunni í þriðja sæti
með tómu stóru töskuna, föturnar og balann.
Þessar þykku hlýju hendur
sem vermt hafa kynslóð af kynslóð
fætur bólgnir af bjúg
og sokkar með lykkjuföllum,
en kápan reigist út
til hliðar yfir töskuna.
Hún er að ná sér í slátur.
Konan fæddist í Hreppunum
í byrjun nýrrar aldar
og lifði sinn aldur í Reykjavík.
Þeir jörðuðu hana í gær
klukkan fjórtán þrjátíu í Fossvogskirkjugarði,
það voru sautján við jarðarförina
og prestur flutti kveðju ættingja,
blóm voru vinsamlega afþökkuð.
Í hvert sinn er ég sé
slíkar hendur
veit ég af þér,
en líkræðan sem presturinn flutti
var innantóm
því hann gat aldrei skilið
táknmál lífsins sem þú varst.
Ólafur H. Einarsson 1985
Til fróðleiks þá var verslunin Ás ofarlega á Laugarvegi sem seldi slátur og allt til sláturgerðar. Hún stóð þar sem hlykkurinn kemur á Laugarveginn, en þar er í dag gríðarlega há bygging og held ég að þar sé íbúðir fyrir aldraða eða elliheimili ? Ekki beint yndisauki sem snýr að götunni sjálfri. Þar var líka áður timburverslun Árna Jónssonar og nokkuð stórt port með háum timburstöflum.
Á þessum árum var það til siðs að bílstjórar strætisvagna segðu upphátt nafn á stoppistöðum. Þannig höfðu allar stoppistöðvar sitt nafn. Skemmtileg venja. Ég tók eftir þessu í Danmörku þegar ég var þar að bílstjórar gera þetta einnig þar. Ekki veit ég til þess að það tíðkist hjá Strætó bs eða hvað þetta heitir í dag.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Ljóð, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn, Vinir og fjölskylda, Lífstíll | Breytt 5.6.2007 kl. 17:34 | Facebook
Athugasemdir
Leit við og naut lestursins. Takk.
Marta B Helgadóttir, 4.6.2007 kl. 23:34
Takk fyrir að rifja upp gamla stemmningu.
Þekki þetta allt saman, átti alltaf leið um Rauðará, Ás og Tungu.
En Danir eru ekki einir um uppköllin.
Það gera Þjóðverjar líka, en illskiljanlega í eyrum gamals farþega úr þristinum.
Með góðri kveðju,
Jón Valur Jensson, 6.6.2007 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.