14.6.2007 | 00:32
Niðurrifsmenn við Laugaveginn og flutningur húsa.
Annars er engin tilgangur í því að vera að varðveita hús, nema að það verði varðveitt á þeim stað sem húsið er byggt á og hefur alla tíð staðið á. Reyndar í mjög fáum tilviku getur það átt rétt á sér að flytja hús burt. Hvað varðar húsið að Laugavegi 74 þá var að sjálfsögðu búið að afskræma það með plastklæðningu ( della sem gekk hér yfir fyrir ca. 10 - 15 árum ef ég man rétt ) og þannig hafði húsið tapað einkennum sínum. Það voru engin plasthús byggð á Laugavegi hér í eina tíð.
Emil Emilsson forsvarsmaður Laugavegs 74 ehf. segir að mikil vinna hafi verið lögð í að varðveita ytra útlits hússins svo það samræmist deiliskipulagsskilmálum ( þar að segja nýja húsið ).
Hvernig er hægt að varðveita ytra útlit húss sem búið er að rífa. Það skil ég ekki. Hins vegar er hægt að byggja nýtt hús og laga það að umhverfi og trúlega er það þannig. En nýbyggt hús er nýtt hús og er allt annar handleggur. Það er engin huggun í að byggja ný hús sem eiga að líkjast gömlum húsum.
Getur þú lesandi góður séð fyrir þér að rífa Alþingishúsið og byggja nýtt vegna þess að skipulag hússins er óhentugt. Í þessu nýja húsi væri reynt að varðveita ytra útlit hússins. Þessi hunda lógig gengur ekki upp. Nýtt hús er alltaf nýtt.
Húsavernd á að snúast um að varðveita hús vegna aldurs þeirra og sögu þeirra á þeim stað sem þau eru byggð. Þá á að finna húsunum tilgang sem hentar þeim t.d. með að hafa ferðatengda þjónustu eða eitthvað annað. Ég sé fyrir mér að í svona húsi gæti t.d. verið matsölustaður sem selur íslenskan mat ( skyr, hangikjöt, bjúgu, svið o.s.f.v) en ferðamenn leita uppi slíkan mat. Hugmyndirnar er óþrjótandi.
Reykjavíkurborg á að stofna sjóð sem getur tekið þátt í að koma svona starfsemi á koppinn. Með því að eignast hlutafé í rekstrinum o.s.f.v. sem síðar er hægt að selja þeim sem fjárfesta vilja. Það þarf dirfsku í þessi verkefni.
Með þessu áframhaldi verður búið innan 20 ára að gerbreyta þeirri götumynd sem var við Laugaveginn. Þar verða komin að mestu ný hús, sum steypt með glerfrontum eins og sést á myndinni í Mogganum hægramegin við götuna. Önnur nýbyggð í fornlegu útliti. Það er einfaldlega sögu-og menningarfölsun.
Ég er hryggur yfir því að niðurrifsmennirnir hafi orðið þetta sterk ítök. Vaknið Reykvíkingar og aðrir sem unna gamla bænum áður en of seint verður að snúa þessari þróun við.
Ps. Myndin af húsinu er úr Hafnarstræti, vantar mynd af Laugavegi
Minni á greinar sem ég hef skrifað hér á blogginu mínu um tengt efni. En í efnisyfirliti er aðeins 15 greinar upptaldar. Skruna þarf niður síðuna og velja næstu síðu ( síður ) til að finna efnið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Lífstíll, Ljóð, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn, Vinir og fjölskylda, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:48 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Ólafur.
Ég tek eftir að þú er sár að verið sé að flytja þetta tiltekna hús burtu og geyma það á dauðadeildinni vestur á granda. eins og þú nefnir það.
Mér finnst sjálfur ekkert af því að hús séu grisjuð við Laugarveg og Hverfisgötu mörg af þessum eru illa við haldin og ætti að fjarlægja sem fyrst.
Enn sum af þessum húsum eru falleg og mjög vel við haldið. Varandi þetta tiltekna hús þá fannst mér ekkert athugavert við þetta tiltekna hús. Það má vel vera að þetta hús hafi sál hjá þér. Sem ber að virða. Þetta er þá svipað þegar Laugavegur 76 var flutt burtu og stendur nú vestur á Grandaveg glæsilegt hús í dag. Enn var mjög illa farið vegna viðhaldleysis áður enn það var flutt burtu.
Varandi dauðadeildina sem þú kallar vestur á Granda. Þetta er ekki rétt hjá þér að kalla þetta dauðadeild. Enn ég get bent þér á að ég sjálfur hef gert athugasemd að gömul hús séu geymd þarna vestur á Granda þetta er mjög ósmekklegur staður fyrir gömul hús. Ég get tekið undir það hjá þér að þessi staður er óheppilegur.
Enn og aftur ég er ekki sammála þér í þessu. Það verður að grisja þessi hús það er ömurlegt að horfa uppá þetta.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 14.6.2007 kl. 09:24
Ágæti Jóhann Páll. Þakka þér fyrir að veita þessu máli athygli. Varðandi húsin við Hverfisgötu skal ég játa að mér finnst þar mjög brotinn svipur á götumyndinni. Eftir því sem innar dregur í götunni er eins ósamræmið í þessu öllu verði fullkomið. Þannig get ég alveg séð fyrir mér endurgerð húsa og byggingu nýrra við þá götu. En varðandi Laugaveginn þá gegnir öðru máli. Varðveita á skilyrðislaust öll hús við götuna. Gera endurbætur, þar sem gætt er að því að hrófla ekki við heildar myndinni. Menningarverðmætin í þessum húsunum eru fólgin í heildar myndinni. Húsin mynda samfellu sem eru í eðli sínu mjög sundurleit og á vissan hátt mótsagnakennd. En í því liggur galdurinn. Ég hef séð t.d. í Árósum í Danmörku hvernig gömul hús eru varðveitt í sinni mynd og án þess að klína við hliðina á þessum húsum nýjum húsum, sem eiga enga samleið með umhverfi sínu. Vissulega er líka þar hægt að finna sambland af nýju og gömlu eins og í miðbænum sjálfum. Hús sem eru slitin upp úr umhverfi sínu og flutt til endurgerðar á nýjum stað eru allt annað mál. Þar er verið að nýta þau verðmæti sem felast í húsinu sjálfu og mynda hagnað. Varðveislugildið er horfið, nema í sárafáum tilvikum. Ég vil miklu heldur byggja ný hús á nýjum lóðum, en flytja gömul hús þangað, þar sem þau uppfylla síður nútímakröfur og þægindi. Við getum ferðast um víðan heim, en Laugavegurinn er bara í blessaða gamla bænum okkar og það vil ég varðveita. Víða er viðhaldi húsa áfátt og það ber að harma, en það réttlætir ekki að hús sé rifið vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Það er eins konar neyslusamfélags hugsun, henda og kaupa nýtt.
Ólafur H Einarsson, 14.6.2007 kl. 17:09
Sammála herrunum báðum að Grandinn er hvorki heppilegur né smekklegur staður fyrir gömul brottflutt hús. Tek alfarið undir röksemdir Ólafs að neysluviðhorfin ráði þarna för, að henda öllu sem gamalt er og byggja bara nýtt. Við erum ríkt samfélag og höfum vel efni á að viðhalda sögunni og rómantíkinni sem henni fylgir í gamla borgarhlutanum. Byggjum nýja draslið annarsstaðar, nóg er landrýmið á Íslandi. Við erum ekki í sömu aðstöðu og þeir sem búa á Manhattan og þurfa að nýta hvern fermeter til hins ýtrasta með ultra nútímalegum og ljótum skýjakljúfum.
Marta B Helgadóttir, 15.6.2007 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.