17.8.2007 | 01:00
Snæfellsnesjökull og fallegu kvöldin núna í águst
Nú þegar kvöldin eru roðuð af kvöldsólinni og Snæfellsnesjökull skartar sýnu fegursta þá er eins og loftið verði dulmagnað. Eins konar galdur í loftinu. Það er farið að læðast að manni að það sé farið að líða vel á þetta annars einstaklega góða sumar. Krækilyngið er orðið svart og bláberin komin með sinn rétta lit, en dálítið súr enn. Ég man ekki sérlega vel hvernig haustið var 1998, en trúlega hefur verið svipuð kvöldsinfónía þegar ég samdi ljóðið hér á eftir.
Snæfellnesjökull
Hvað roðar jökul á rauðu lofti
og rökkurljós í húsum inni,
hvar breiðist blámans sorti
á breiðu djúpi í flóans minni
Hvað ljær þér línur blárra fjalla
um loftsali skýja og valla
hver vakir í veröld okkur alla
og veit ekki að ég er að kalla
Hvað meitlar þig mánans skini
mildar og gerir þig að vini
sem þekkir tár og trega minn
og treystir mér þá ég hann finn
Hvað lofar þér lofsöng slíkan
ljóðslist, frelsi og þrá
hver vekur þér vellíðan líkan
værðarvoð guðs að ná
Hvað bindur þig blómanna mál
boðar eilífð í fjallsins skál,
hver gaf þér guðlegan sal
sem glepur og drepur allt tal
Hvar er sú viska sem af þér gengur
sögur og galdrafár,
hver vill þína vegferð lengur
voröld og skálda tár
Hvar á tungunni að tæmast öl
tilfinningar, rótleysi og lofgjörð,
hér endar allt einsmanns böl
eilíflega við þinn svörð.
Ólafur H. Einarsson 1998.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Ljóð | Breytt s.d. kl. 01:05 | Facebook
Athugasemdir
Mikið er þetta fallegt.
Ein spurning til þín Ólafur, ég er að smala í smá leshring sem mun fara fram alfarið á blogginu. Hefurðu skoðað það nokkuð?
Marta B Helgadóttir, 17.8.2007 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.