13.9.2007 | 22:35
Lokum fyrir þverun Miklubrautar um Lönguhlíð - umferðaröngþveitið
Umferðarteppan á morgnana á Miklubraut hefur verið talsvert til umræðu í fjölmiðlum undanfarið af skiljanlegum ástæðum. Ég er einn af mörgum sem er að keyra í röðinni niður í bæ þetta á 15 - 40 km hraða og stundum hægar. Af skiljanlegum ástæðum er ég orðin þeirrar skoðunar að loka verði fyrir þverun á gatnamótum Lönguhlíðar ( sjá mynd ).
Með þeirri aðgerð væri búið að losa stífluna sem er aðallega á þessum gatnamótum. Þannig væri viðstöðulaus umferð frá horni Kringlumýrar og Miklubrautar niður að ljósunum hjá Umferðarmiðstöðinni.
Því vil ég skora á umferðaryfirvöld í Reykjavík að skoða þennan möguleika. Stærsti flöskuhálsinn á Miklubrautinni er á þessum gatnamótum, en umferðin sem kemur af sunnaverðri Kringlumýrarbraut safnast frá gatnamótum Lönguhlíðar upp að gatnamótunum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar. Þegar ljósin kvikna fyrir umferð niður Miklabraut stoppa nánast allt vegna þess að þessi spotti ber ekki fleiri bíla.
Með því að loka fyrir þverun á Lönguhlíðinni mun umferð verða miklu greiðari. Trúlega verður þetta til óþæginda fyrir marga, en göturnar bæði norðan við og sunnan við Lönguhlíð verða miklu rólegri húsagötur eftir þessa breytingu og geta skapað meira næði þar á kvöldin þegar umferð minnkar.
Lokum fyrir þverun á Lönguhlíð og losun um umferðarstífluna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
... og þannig múra Hlíðarbúa endanlega inni á milli hraðbrauta þar sem umferðin gengur á 80+ og engin leið fyrir íbúa að sækja í þjónustu innan hverfisins. Hvernig ætlar þú að koma fólki milli hlutanna ef þú lokar þessum gatnamótum? Þarf að fara þarna yfir daglega með barn í leikskóla í hinn hlutann (og lendi þá í að þurfa að stoppa á miðeyjunni út af fáránlegri þrepaskiptingu gangbrautaljósanna og láta mér lynda að þú og þínir samferðalangar ausa yfir okkur feðga drullu og skít, eingöngu vegna þess að í borginni eiga bílar allan rétt að mati umferðarverkfræðinga). Auk þessara daglegu ferða, þá þurfa íbúar líka að sækja ýmsa þjónustu milli hverfahlutanna eins og heilsugæslu, félagsstarf aldraðra, íþróttir og verslun. Þér er annars kannski alveg sama um þá rúmlega 6.000 íbúa sem þarna búa sinn hvoru megin við því þér liggur á.
Hilmar Sigurðsson, 17.9.2007 kl. 18:43
Ágæti Hilmar !
Miklabraut er orðin hraðbraut, það er einfaldlega staðreynd. Brautin klífur hverfið þarna í tvennt, það er líka ljóst. Þegar Miklabrautin var gerð á sínum tíma voru steypt undirgöng undir götuna og eru þau væntanlega þarna enn. Þar færi ég með barnið ( börnin mín) frekrar en að vera þarna milli lífs og dauða. Þá er ljóst að gönguljós verða að vera þarna fyrir gangandi fólk. Ég dreg engan dul á að þetta mun koma við marga, mér er það ljóst. Víða í borginni er verið að þrengja götur, breyta akstursstefnu gatna. Draga hraða niður í 30 km o.s.f.v.. Þannig hafa gróin hverfi tekið umskiptum og ég geri ráð fyrir því að það hafi einnig gerst líka í Hlíðunum hvað varðar umferð. Eins er ljóst að gatnamótin munu taka breytingum hvort sem þessi hugmynd verður ofan á eða önnur. Núverandi ástand gengur ekki lengur það sjá allir og skilja sem fara þarna um.
Ólafur H Einarsson, 17.9.2007 kl. 20:45
Ég bjó á þessu svæði frá 1960 og var með í að steypa Miklubrautina áður en Kringlumýrarbrautin var byggð. Þetta var mikið mannvirki á sínum tíma og fengnar vélar að láni frá Kananum til að steypa 2 akreinar í einu. Nú svo komu þessi gatnamót Kringlumýri/Miklubraut, en þau sá ég ekki fyrr en mörgum árum eftir lagningu. Það var bara eitt í þessum gatnamótum sem ég skyldi ekki og það voru ljósin. Það var einskonar innbyggt árekstrar ljós í þeim og hafa ljósameistararnir ekki ennþá fundið lausn á þeim galla. Enda ekki hægt. Umhverfið býður upp á hringtorg með 3 akreinum og auka akreinum fyrir alla hægri beijur sem beygt er inná áður en komið er í sjálft hringtorgið. Þessi lausn er nú vel þekkt á meginlandi Evrópu (ekki koma og segja að hér sé allt öðruvísi umferð) og sá ég þetta gert um daginn og minkaði biðin í ljósagatnamótum, frá 12 mín. niður í 30-45 sek.!!Umferðin svipuð, með bylgjum að morgni og kvöldi. En þar sem annarstaðar eru beygjur of mjóar og með aftanívagn, fer maður upp á kantinn og skemmir dekk og gróður (hönnuðir ættu að hafa meirapróf og reynslu á semitrailer). Hringtorg við Lönguhlíð/Miklubraut er góð lausn og nota undirganginn fyrir gangandi vegfarendur.
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 17.9.2007 kl. 21:18
Augljóst er að einhvernveginn verður að leysa umferðina. Breytingar koma alltaf við einhverja. Ástand óviðunandi. Ég þarf að vísu aldrei að aka þarna um þetta leyti, það er mjög slæmt fyrir fólk og alla að koma uppstressaðir í vinnu, eiginlega alveg óþolandi. Þetta er ekki það stór borg að ekki eigi að vera hægt að hafa þetta svona í sæmilegu ástandi. sh
Sólveig Hannesdóttir, 17.9.2007 kl. 21:20
Sæll Ólafur,
Mig langar að bjóða þér að koma í heimsókn í hverfið og nota undirgöngin sem þú nefnir. Prufaðu að vera með barnavagn eða taktu með þér eldri borgara. Væri gaman að sjá gangnaglímuna sem þú lentir í, auk þess sem loftið í göngunum er mettað af stórskaðlegri mengun. Það þarf súrefniskút og grímu til að komast þar í gegn!
Miklubrautin er breiðgata - ekki hraðbraut. Þar liggur misskilningurinn. Hinsvegar er umferðin um hana hraðbrautarumferð, en það þýðir ekki að hún þurfi að vera það til eilífðar.
Það eina sem þýðir með þessi gatnamót - og reyndar Miklubrautina frá Kringlumýrarbraut alla leið að Snorrabraut er að koma henni niður í jörðina. Fyrr skapast ekki ró um málið. Þessi aðgerð er miklu mikilvægari en mislæg gatnamót á KriMi því þau gera ekkert annað en að færa stíflur til á nærliggjandi gatnamót.
Varðandi athugasemd Sólveigar um að breytingar koma allaf við einhverja, þá vona ég að hún sé ekki að meina að það sé ásættanlegt að múra inni yfir 6.000 íbúa í litlum einangruðum íbúðaeyjum til að koma einmönnuðum bílum aðeins hraðar yfir.
Hilmar Sigurðsson, 18.9.2007 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.