Stjórnarráðið og mótmælendur í janúar 2009

 DSC00371-1

Ég átti leið fram hjá Stjórnarráðinu í vikunni s.l.  Það var undarlegt að sjá mannfjöldann sem var á vellinum framan við húsið og lögregluna raða sér framan við húsið.  Glymjandi hávaði frá pottum og kirnum og öskur mómælenda.  Smelti nokkrum myndum á símann minn og hvarf af braut.  Þegar ég hafði flutt myndirnar inn í tölvuna var sem ein myndin væri greypt í huga minn.  Það var einhver stemming sem er í einni myndinni, sem erfitt er að koma í orð.  Fyrir utan janúar birtuna og þetta undarlega leiksvið stjórnmála og mannlífs, þá stóð Hannes Hafstein í sinni stóísku ró, fyrsti Íslands ráðherrann og lögreglan ábúðamikil sem varði húsið. 

Gamla tukthúsið, þar sem yfirvaldið tuktaði mörlandann til hér forðum var orðið að fangelsi ríkisstjórnarinnar.  Lögreglan vaktaði framkvæmdavaldið í dýflissunni.  Þannig hafði alþýða landsins snúið á hið veraldlega vald og var nú sinn eigin fangi - sjálfviljug að leggja grunnin að Brimarhólms vist sinni.  Og gamli íslands ráðherrann og skáldið stóð eins og steinrunninn í hinu formaða efni.  Ósjálfrátt fór um hugann ljóðið ,, Stormur " líkt og elding sem nær jarðsambandi.   

STORMUR

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

 

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,

þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,

og neistann upp blæs þú og bálar upp loga

og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

 

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber

og birtandi, andhreinn um jörðina fer;

þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur

og lífsanda starfandi hvervetna vekur.

 

Og þegar þú sigrandi ' um foldina fer,

þá finn ég , að þrótturinn eflist í mér.

Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,

ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

 

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,

með ólgandi blóði þér sögn minn ég býð.

Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;

hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

 

Þessi undarlega mynd sem er í huga mínum, hefur haft  mest áhrif á mig af öllu því stríði sem háð er á götum Reykjavíkur þessa daganna.  Vonandi tekst okkur að ná áttum og niðurlagið í síðast ljóðinu hér að ofan verði sá eldmóður sem blæs þjóð okkar von. 

,, Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð

með ólgandi blóði þér söng minn ég býð ".

 

Lifið heil ! 

* Hannes Hafstein er höfundur ljóðsins STORMUR

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta er gríðarlega magnað.

Takk fyrir að rifja það upp fyrir mér. Ég var alveg búin að gleyma því   Kveðjur og heilsanir

Rúna Guðfinnsdóttir, 28.1.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband