Færsluflokkur: Dægurmál
14.6.2007 | 00:32
Niðurrifsmenn við Laugaveginn og flutningur húsa.
Annars er engin tilgangur í því að vera að varðveita hús, nema að það verði varðveitt á þeim stað sem húsið er byggt á og hefur alla tíð staðið á. Reyndar í mjög fáum tilviku getur það átt rétt á sér að flytja hús burt. Hvað varðar húsið að Laugavegi 74 þá var að sjálfsögðu búið að afskræma það með plastklæðningu ( della sem gekk hér yfir fyrir ca. 10 - 15 árum ef ég man rétt ) og þannig hafði húsið tapað einkennum sínum. Það voru engin plasthús byggð á Laugavegi hér í eina tíð.
Emil Emilsson forsvarsmaður Laugavegs 74 ehf. segir að mikil vinna hafi verið lögð í að varðveita ytra útlits hússins svo það samræmist deiliskipulagsskilmálum ( þar að segja nýja húsið ).
Hvernig er hægt að varðveita ytra útlit húss sem búið er að rífa. Það skil ég ekki. Hins vegar er hægt að byggja nýtt hús og laga það að umhverfi og trúlega er það þannig. En nýbyggt hús er nýtt hús og er allt annar handleggur. Það er engin huggun í að byggja ný hús sem eiga að líkjast gömlum húsum.
Getur þú lesandi góður séð fyrir þér að rífa Alþingishúsið og byggja nýtt vegna þess að skipulag hússins er óhentugt. Í þessu nýja húsi væri reynt að varðveita ytra útlit hússins. Þessi hunda lógig gengur ekki upp. Nýtt hús er alltaf nýtt.
Húsavernd á að snúast um að varðveita hús vegna aldurs þeirra og sögu þeirra á þeim stað sem þau eru byggð. Þá á að finna húsunum tilgang sem hentar þeim t.d. með að hafa ferðatengda þjónustu eða eitthvað annað. Ég sé fyrir mér að í svona húsi gæti t.d. verið matsölustaður sem selur íslenskan mat ( skyr, hangikjöt, bjúgu, svið o.s.f.v) en ferðamenn leita uppi slíkan mat. Hugmyndirnar er óþrjótandi.
Reykjavíkurborg á að stofna sjóð sem getur tekið þátt í að koma svona starfsemi á koppinn. Með því að eignast hlutafé í rekstrinum o.s.f.v. sem síðar er hægt að selja þeim sem fjárfesta vilja. Það þarf dirfsku í þessi verkefni.
Með þessu áframhaldi verður búið innan 20 ára að gerbreyta þeirri götumynd sem var við Laugaveginn. Þar verða komin að mestu ný hús, sum steypt með glerfrontum eins og sést á myndinni í Mogganum hægramegin við götuna. Önnur nýbyggð í fornlegu útliti. Það er einfaldlega sögu-og menningarfölsun.
Ég er hryggur yfir því að niðurrifsmennirnir hafi orðið þetta sterk ítök. Vaknið Reykvíkingar og aðrir sem unna gamla bænum áður en of seint verður að snúa þessari þróun við.
Ps. Myndin af húsinu er úr Hafnarstræti, vantar mynd af Laugavegi
Minni á greinar sem ég hef skrifað hér á blogginu mínu um tengt efni. En í efnisyfirliti er aðeins 15 greinar upptaldar. Skruna þarf niður síðuna og velja næstu síðu ( síður ) til að finna efnið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.6.2007 | 01:05
Hin stórhættulegi 13. júní
Ætlaði ekki að blogga í dag, það er miðvikudagurinn 13. júní. 13. júní er stórhættulegur dagur og maður á bara að vera í rúminu og lesa bók. En...... þá datt mér í hug að lauma bara enn einu ljóði sem fjallaði um vikudagana. Þannig að þetta sleppur af því að þetta er um vikudaga, en ekki neitt annað.
VIKUDAGAR
Mánudagsmorgun ég man það svo vel
hvað morguninn var fagur og tær,
en þriðjudagur var þreyttur, hann ég fel
því með eindæmum var hann þó fagur í gær.
Miðvikudagur var mæddur af raunum
en átti samt mikið af heimsins launum.
Fimmtudagur hljóður, ferðbúinn af draumum;
fagnandi beið hann eftir helgarsögum.
Föstudagur varð frelsarans krossins bani
frelsið í sér, samt er hans vani,
en laugardagur með leti högum
líknaði skrokknum af öllum dögum.
Sunnudag ég sofa vildi
en sólin það ekki skildi.
Ólafur H. Einarsson 2002
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2007 | 10:30
Egilsaga og flesnusaga með ljóði
Ég braut heilann um þetta og ákvað að prufa sjálfur. Reyndar gaf ég mér ekki heila nótt til að búa til ljóðið sem hér kemur á eftir, en Egill kallinn var trúlega pennalaus þarna í dýflísunni forðum og lagði þetta allt á minnið. Sá er munurinn. Já, ég skrifaði ljóði nærri í einum rykk; enda með flensu og hita. Spurningin er hvort ég hefði haldið höfðinu með þetta ljóð. Það verður að bíða seinni tíma, þar að segja þar til ég hitti þá félaga í framlífinu báða örugglega meinlausa engla með vængi. Hver veit ?
Naustuð skip
1.
Skilja lifa, skemmtan þrá
skömm þá fáir mæta,
hugur eflir hrellda brá
heiman má ei græta.
2.
Nærist sál í nausta lagi
gnýr fer tímans tregi
eflir kyrrð, kvalda hagi
kuml tímans þá þegi.
3.
Eflist hamur og höndin blíð
hjartans klukka tifar
löng verður lifuð tíð,
lofgjörð þess sem eftir skrifar.
4.
Væringar manna visku skerða,
vond er tunga helsis
heimur illsku, haturs serða
hjóm á blóma frelsis.
5.
Skömm hljóta, skekur frið
skrúðmælgi natinn tefur,
maður tapar, nísta grið
mal sinn endanlega grefur.
6.
Hlusta þrír, þá heimur telur
hlæast tungur margra hrelldra,
morgun aftur nýjan felur
nærist tár af hvarmi felldra.
7.
Nísti of, þá nökkva þinn
nóg eru skerin sigld
friður kemur, fræðin auðgar
festar lands þá aftur gild.
8.
Veikist of, veikur hugur
verða skil á þáttum,
spynnist þá, í skikkju dugur
skaparans miklum máttum.
9.
Helga skaltu, hlýðni góða
herrans skaparans tign
mekt hans, mikinn gróða
megnar hans sign.
10.
Gera skaltu góða hlut
af gnægðarborði skaparans,
vilji ríkur veltir skut
veit skipi þínu heimsins gjafarans.
11.
Hlutast skaltu, heimsins gerðir
hlíða kalli samviskan
réttlátur mikinn, reiðileysis ferðir
röggsamur við náungann.
12.
Fari lyndi, freisting þín
fugls sem um flýgur
naustast ei í nöpur vín
nauð djöfuls þig sýgur.
* 13.
Nærðu sál á nýju klæði
njóttu dagsins þrek
að kveldi, allan kaleik græði
hvað átök þig tek.
14.
Heimsins launa hlustaðu ei
hnjóð eigna safna,
berast skaltu, aldrei næktarfley
svo börn þín undan kafna.
15.
Þá nálgast þreyttrar æfi
þyrstir ei lífið meir,
tak mal þinn og klæði
nægjusemin einni tilheyr.
16.
Við tré, vistast skaltu
veit austri hót,
þá nótt fer heljar haltu
ei lífið mót.
17.
Þá morgun aftur rísi
mót sólu dags,
líkami þinn lausnarinn hýsi
líknar brú hins nýja lags.
18.
Náð þín verði nokkuð tekið
naustist sálarskipið allt,
uns skrokkhaldið umkomulaust rekið
umverpist, verður kalt.
19.
Rísi sál, þá röskast efinn
roðagull í paradís,
eimur blóma eylíft gefin
eilíf verði þín vistarprís.
20.
Naustað skipið, í nálægð grafi
nóttin horfin braut,
bið ég þá aftur Guð hafi,
byrgi skipið þitt nýrri þraut.
Ólafur H. Einarsson 2001
* Eftir tólfta erindi á að signa sig þegar þetta er lesið
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 00:55
Er sumarið nú loksins komið ?
Vindar daganna
Er vindar daganna vitja mín
og vorið angan flytur
þá hugsa ég heim til þín
líkt og hjartans þytur.
En bros þitt ber mig enn
mót bárum daga minna,
þó ég þekki ekki alla menn
ert þú mér kærust að finna.
Því hvar sem fögur blómin anga
og hvert sem lífið okkur ber
vekur þú mér vorsins langan
er vetrarstorma þverr.
Því blómfagrar nætur bíða mín
af brjósti þínu unað streymir,
mörg var sú nótt og mörg voru þau vín
sem hjarta mitt ætíð geymir.
Ólafur H. Einarsson 1997
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2007 | 23:23
Loksins - loksins
Þráðlaust rafmagn er staðreynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2007 | 16:22
Reykjavíkurtjörn og gamlar minningar
Þá voru það hlýju hendurnar hennar mömmu sem færðu líf í kroppinn aftur. Sitjandi á eldhúsvaskinum með fætur ofan í emileruðu vaskafati til að fá líf í fæturna aftur. Þessu næst var andlitið þvegið, hárið greitt og svarti kollurinn glansaði. Heita kakóið, já það var eins og maður fyndi það renna um æðarnar fyrst út til handanna og kol af kolli. Höfgi lagðist yfir mig og öll þreytan sem hafði gleymst í leikjum dagsins kom yfir eins og holskefla.
Gamli dívaninn var fljótur að skila mér inn í draumalöndin. Þannig voru þessir dagar og margir í minningunni.
Ljóðið sem hér fylgir er fátækleg mynd af þessari tilveru, en fangar vonandi einhvern.
Reykjavíkurtjörn
Þú tjörn tendruð kvöldsins roða
titrandi báran brotnar við stein
táravatn allra andans goða
almennings óskalaug um betri heim.
Þar endur með öðrum einatt búa
einmenningar þar of um ráfa
flugvélar og aðrir farkostir um fljúga
fagurgljáfægðir bílar ríkar páfa.
Svo sofnar þú fagra tjörn
en svanir syngja um þinn draum
Krían sem kokreiðst hefur við börn
kápu sína hylur egg á laun.
En snöggt sem sofna þín yndi
og sælan umlykur þína sál
vaknar borgin búin sínu lindi
börnin helst af öllum skilja það mál.
Dag í þínu lífi þekkjum öll
þrekmiklir Stekkir berjast um völd
brauði er þar deilt og barnaköll
bragðbæta lífið fram á kvöld.
Á vetrum þú veitir og gleður
vetraríþróttir gáfu þér gildi
og stoltir standa ungir feður
starandi á börn sín fullir yndi.
Þú tjörn tendruð dagsins óð
tilveru okkar þú byggðir
við vorum börn og þú varst okkar ljóð
en vissum ekki um allar þínar dyggðir.
Ólafur H. Einarsson 1975.
Dægurmál | Breytt 7.6.2007 kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.6.2007 | 20:57
Ljóðið Kona og enn um miðbæinn
Það ætlar að ganga illa að hætta að vera í miðbænum með hugsanir sínar. Ég læt hugann reika til Reykjavíkur þegar allt var einhvern veginn hægara ( 1955 - 1960 ). Tíminn var held ég öðruvísi svo undarlega sem það hljómar. Umferðin minni, fasið öðruvísi. Eitthvað í þessa veru er minningin og andrúmsloftið í ljóðinu sem hér kemur á eftir þótt ég hafi samið það löngu síðar. Ég nefni ljóðið ,,Kona".
Kona
Strætisvagnar standa í röð
straumlínulagaðir árið 1955
í október á Lækjartorgi
og lúnir farþegar líta á klukkuna
sem aldrei gengur rétt,
en bílstjórinn sveiflar peningabauknum
í hendi sér á leið í vagninn,
hann býður góðan daginn
um leið og hann horfir yfir farþegana.
Vagninn líður af stað
með rykkjum og skrykkjum
og Bretamalbikið á Lækjargötu
bungast undan hjólunum
enda komið til ára sinna.
Vagnstjórinn kallar hátt og skírt
Rauðará og menn líta hver á annan
um leið og smápeningar skella
á tómum botni bauksins,
en vélarkrafturinn hríslast um bílinn.
En ég gleymi aldrei
konunni í þriðja sæti
með tómu stóru töskuna, föturnar og balann.
Þessar þykku hlýju hendur
sem vermt hafa kynslóð af kynslóð
fætur bólgnir af bjúg
og sokkar með lykkjuföllum,
en kápan reigist út
til hliðar yfir töskuna.
Hún er að ná sér í slátur.
Konan fæddist í Hreppunum
í byrjun nýrrar aldar
og lifði sinn aldur í Reykjavík.
Þeir jörðuðu hana í gær
klukkan fjórtán þrjátíu í Fossvogskirkjugarði,
það voru sautján við jarðarförina
og prestur flutti kveðju ættingja,
blóm voru vinsamlega afþökkuð.
Í hvert sinn er ég sé
slíkar hendur
veit ég af þér,
en líkræðan sem presturinn flutti
var innantóm
því hann gat aldrei skilið
táknmál lífsins sem þú varst.
Ólafur H. Einarsson 1985
Til fróðleiks þá var verslunin Ás ofarlega á Laugarvegi sem seldi slátur og allt til sláturgerðar. Hún stóð þar sem hlykkurinn kemur á Laugarveginn, en þar er í dag gríðarlega há bygging og held ég að þar sé íbúðir fyrir aldraða eða elliheimili ? Ekki beint yndisauki sem snýr að götunni sjálfri. Þar var líka áður timburverslun Árna Jónssonar og nokkuð stórt port með háum timburstöflum.
Á þessum árum var það til siðs að bílstjórar strætisvagna segðu upphátt nafn á stoppistöðum. Þannig höfðu allar stoppistöðvar sitt nafn. Skemmtileg venja. Ég tók eftir þessu í Danmörku þegar ég var þar að bílstjórar gera þetta einnig þar. Ekki veit ég til þess að það tíðkist hjá Strætó bs eða hvað þetta heitir í dag.
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 20:28
Í minningu sjómanna á sjómannadaginn árið 2007
Árið 1993 varð sjóslys við Breiðafjörð sem varð kveikjan að þessu ljóði. Ég vil tileinka það öllum sjómönnum á þessum sjómannadeigi árið 2007 í minningu félaga þeirra sem fallnir eru frá.
Minni sjómanns
Við hafið sem ást mín var bundin
knýtt þangi við sker
ó, ef hlustað ég hefði
á æskunnar öldugálfur
og boðana þungu sem skóku lönd,
því hnýti ég fley mitt
og hugurinn heim leitar
að hjartanu og landinu sem beið.
Við hafið nú í huganum er sáttur
ég hlusta ei meir
á hörpunnar blíðustu óma,
knörr mitt er brotið
því æskan hefur gengið sitt skeið,
héðan sér ekki lengur heim
við hafið þar sem vistast mín bein.
Ólafur H. Einarsson 1993
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá vil ég rífa nýju steinkumbaldana ( Iðuhúsið og nýja húsið við hliðina ). Byggja sambærilegt hús og gamla Biskupshúsið var, en ekki tekur því að fara að flytja það til baka frá Árbæjarsafni. Á reit Iðuhússins vil ég byggja hús sem væri 3- 4 hæðir með svipuðu risi og gamla Biskupshúsið var. Þetta væri tréhús með blöndu af bárujárnsklæðningu og timbri. Þá væru húsin sem lentu í brunanum endurgerð, einnig Austurstræti 22 ( gömlu Haraldarbúðina ).
Þannig væri samfeld húsalína sem væri öll í samræmi við þá húsagerð sem var við götuna. Með þessu móti væri búið að endurheimta þessa gömlu götumynd sem hæfir gamla miðbænum. Þannig geta þessi hús verið augnayndi ferðamann og stolt okkar, um ókomna tíð og minnisvarði um hina gömlu Reykjavík. Það er úrelt hugmynd að byggja nýjan miðbæ með gler og stálbyggingum. Við eru svo lánsöm að eiga nóg land til að byggja á ( ca: 103.000 ferkílómetrar ef ég man rétt ). Hugmyndin um nýjan miðbæ í gamla bænum er löngu úrelt og er arfleið frá fyrsta aðalskipulagi Reykjavíkur, sem er að ég best veit búið að henda á haugana s.b. nýja Tónlistarhúsið.
Umferðarvandinn sem fylgir nýjum miðbæ gerir það að verkum að ekki er raunhæft að þessi gamla hugmynd gangi upp, þannig hefur bílamenninginn gengið af hugmynd dauðri. Ef ráðist verður í að byggja á flugvallarsvæðinu, má hanna nýjan miðbæ og leysa umferðarvandann sem honum fylgir. Hugmyndin um jarðgöng undir Öskjuhlíð losar þennan tappa o.s.f.v..
Stóri nýi miðbærinn getur orðið þar ( á flugvallarsvæðinu ) að veruleika. Allt glerið og nútíma arkitektúr getur skapað þar eitthvað nýtt, en ekki níðs á því gamla og afskræmt eins og búið er að gera við Lækjagötu.
Ég á mér draum..... sagði Marteinn Lúter King um árið reyndar í öðru samhengi, en ég á mér draum um að við munum dag einn endurheimta gömlu bæjarmyndina við Lækjargötu. Mig langar að deila þessum draumi með ykkur þarna úti, því ég veit að við erum mörg sem eigum þennan draum.
Dægurmál | Breytt 9.6.2007 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2007 | 20:40
Ekki afskræma meira gamala miðbæinn í Reykjavík
Enn á að fara að reyna að afskræma gamla miðbæinn. Nýjasta er að efna til samkeppni arkitekta um miðbæjarreitinn. Ég var að vona á Vilhjálmur gæti haldið sjó með hugmyndina um uppbygginguna á þessu svæði, en eitthvað er farið að vatna undan því. Enda þótt gott væri að fá sátt um hvernig við viljum varðveita gamla bæinn, þá hræða sporin. Lítum nú á hvernig miðbæjarmyndin er á húsunum við Lækjargötu og Austurstræti. Þar sem áður stóð Nýjabíó var byggt hús sem nú orðið er kennt við Iðu ( verslunina Iðu ). Iðu húsið er að mínu mati algert slys í þessu umhverfi svo ekki sé minnst á húsið við hliðina. Þetta er algerlega misheppnað og Iðuhúsið er eins og ofviti í þessu umhverfi.
Húsin sem slík eru á vissan hátt fallegur arkitektúr, en passa engan vegin inn í þessa gömlu götumynd og eru slys sem slík. Þau hefðu sómt sér vel í nýjum hverfum þar sem byggt er á sambærilegan hátt, en ekki í götumynd bárujárnshúsa. Þessu má líkja við Morgunblaðshúsið sem ég man vel eftir, þegar það var byggt. Hús sem er í algerri mótsögn við umhverfið sitt. Ég hefði gjarna vilja hafa gamla Biskupshúsið áfram, en ekki upp á Árbæjarsafni; marghrunið og endurbyggt úr fjölunum sem eftir voru heillegar.
Þá hefði átt að byggja hús sem félli að götumynd þessarar gömlu húsa, á reitinn þar sem Nýjabíó var; en ekki þennan ofvaxna ofvita. Sporin hræða í þessu efnum og hagsmunir þeirra sem vilja græða á öllu sem gert er, leiða þessa þróun; með öfugum formerkjum. Vegna þessa alls hef ég ótrú á að út úr þessu komi eitthvað boðlegt. Teiknaðar verða örugglega háar glerbyggingar í anda Tónlisthússins, sjáum til hvað kemur úr skjóðu kellingar. Þá óttast ég að byggingarnar verði það háar að sólarljósið sem vermir í Austurstræti við Lækjartorg verði líka skyggt, líkt og húsið sem byggt var á reitnum þar sem Stjörnubíó stóð. Húsið þar er það hátt að aðeins er þar smá ræma sólarljós við húsið handan götunar. Viðmið hæðar húsa verður að taka mið af því þegar sól er lægra á lofti en ekki við bestu skilyrði.
Því vil ég skora á Vilhjálm borgarstjóra að halda fast við hugmynda um að byggja húsin í sem upprunalegustu mynd sinni. Miðbæjarmyndin sem við flest viljum varðveita. Við getum um allan heim séð glerhallir og nútímabyggingar, en hvergi þessi gömlu hógværu hús sem eiga svo mikið í okkur og geyma sögu okkar og arfleið. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir slíka arfleið.
Dægurmál | Breytt 1.6.2007 kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)