Færsluflokkur: Menning og listir
17.3.2008 | 19:55
KEA kaupir Hafnarstræti 98 - gömlu húsi bjargað
KEA kaupir Hafnarstræti 98 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2008 | 22:55
Vormyndir gegn vonbrigðum um skattpíningu stjórnvalda á láglaunafólk
Vormyndir gegn vonbrigðum um skattpíningu stjórnvalda á láglaunafólk, er eiginlega eina sem ég get hugsað mér á þessari stundu eftir opinberun OECD á skattpíningarstefnu sjálfstæðisflokksins og framsóknarflokksins árin 2000 - 2006. Reyndar vissi þetta allt láglaunafólk af sköttunum sem það var að greiða, en með þessa lygi voru þessir flokkar kosnir áfram í forystu í landsmálum. En síðar um það. Hér eru nokkrar myndir til að lyfta sér upp frá lygi stjórnmálanna.
Takið eftir bruminu á trjánum.
Hvar sér maður svona skraut í samtímanum ?
Falleg birta.
Sjáið glervirkið sem er verið að byggja í bakgrunninn. Þessi arkitektúr á varla heima í þessu umhverfi.
Loks Austurstræti í amstri dagsins. Þessa alls er hægt að njóta án þess að verða skattlagður með því einu að skreppa í miðbæinn. Njótið heil.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.3.2008 | 17:34
Meira af fuglum og mönnum í góða veðrinu
Fuglar og menn í blíðunni á laugardaginn við tjörnina. Eins og vorið væri að boða komu sína. Hver veit ?
Við Austurvöll.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2008 | 09:43
Fella á kjarasamninginn nýja - persónuafsláttur ófullnægjandi
Nú er verið að birta á vef asi.is dæmi um taxtabreytingar. Í ljósi þessarar töflu er ljóst að óviðunandi er að samþykkja þessa samninga nema að persónuafsláttur hækki samhliða hækkun launa. Hækka á afsláttinn á næsta ári um 2000 krónur (árið 2009 umfram almenna verðuppfærslu). Síðan hækkar sambærilega árið 2010 og 2011. En kjarasamningur rennur út í nóv. 2010 ef ég hef tekið rétt eftir. Þannig mun stór hluti hækkunar núna renna í ríkissjóð í aukna skattheimtu vegna hærri launa. Á launatöflu sem birt á vef asi.is eru dæmi um taxta.
Árið 2007 hafði starfsmaður í ræstingu 121.317.- í laun. Hægt er að fara inn á vef ríkisskattstjóra og reikna skatta af launum í þar til gerðri reiknivél. Skattur af launum er 6.700 krónur núna eftir áramót t.d. útb. laun 1. feb. s.l.
Nýjustu laun ræstingarstarfsmannsins eru 139.317 krónur núna með þessum nýja kjarasamningi. Staðgreiðsla af þessum launum er 12.744 krónur. Nærri lætur að ríkissjóður fá helmingi hærri skatt af viðkomandi eftir hækkun. Þannig eru útborguð laun 114.928 krónur. Útreikningur gerir ráð fyrir 2% í séreignarsparnað og 3.286 í félagsgjald á mánuði.
Raunveruleg hækkun er 10.876 krónur.
Af ofansögðu veðrur ríkisstjórnin að leiðrétta þetta strax, því er ekki annað fært en að hafna kjarasamningunum. Það verður að koma til strax breyting á persónuafslætti til þess að gerlegt sé að styðja þennan kjarasamning. Ekki bara þessi 2000 kall heldur umtalsverða hærri upphæð.
Um aðgerðir ríkisstjórnarinnar má segja ýmislegt. Ég dreg t.d. stórlega í efa að bygging fél. leiguhúsnæðis og aukið fé í það skili sér. Það hefur verið nægjanlegt fé í þetta en sveitafélögin vilja ekki byggja þetta húsnæði og hafa ekki sótt um það.
http://www.rsk.is/reiknivelar/nidurstodur/vara_reiknivel_stadgreidslu_2.asp
vefur ASÍ http://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-972/
launataflan
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2008 | 16:09
Gamla varaaflsstöðin við Elliðaár að víkja ?
Visir.is segir frá því í gær ( 15. feb. ´08 ) að Landsvirkjun hefur fært Reykjavíkurborg til fullrar eignar varaaflsstöðina við Elliðaárnar. Veiðimenn sem veitt hafa þarna lengi kannast við þetta hús. Varaaflstöðin var gangsett árið 1948 og er því orðin að hluti af þessu umhverfi. Um tíma var verið að tala um að laga húsið og fá það listmönnum til notkunar. Ég heyrði að eitthvað væri um spilliefni (asbest) í húsinu. Í gær 15. feb. fékk borgarstjórinn nýjasti, Ólafur F. Magnússon afhenta lykla og þrjár spildur í Elliðaárdal alls 15. þúsund fermetrar. Borgin tekur að sér að rífa húsið, í stað landsins sem fylgir með, en þau eru hluti af útivistarsvæði Elliðaársdals. Húsið hefur verið í vanrækslu og var málað fyrir nokkrum árum ef ég man rétt. Mér hefur alltaf þótt þetta formfagurt hús hvernig sem á því stendur. Það má alveg sjá þarna fyrir sér aðstöðu fyrir t.d. listamenn sem nýlega urðu fyrir skakkaföllum á Korpúlfsstöðum. Væri þetta hús lagað og málað gæti þetta verið hið fallegast hús, á sinn hátt !
En trúlega eru fleiri á því að rífa þetta hús, þannig er tíðarandinn. Læt hér til gamans myndir með af þessu húsi, sem hefur verið bakgrunnur í mörgum veiðiferðum í gegnum árin í Elliðaánum hjá mér.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2008 | 15:11
Stjórnmálin og valdaskiptin í Reykjavík - húsfriðun
Mánuðum saman hef ég skrifað hér á blogginu um nauðsyn þess að friða sem mest af eldri götumynd Laugavegs og reyndar um Lækjargötu og verndun miðbæjarins. Ég er sannfærður um að það eru að verða straumhvörf í umræðunni um verndun gamalla hús í miðbæ Reykjavíkur. Innlegg Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Silfur Egils hafði þar mikil áhrif. Torfusamtökin hafa einnig verið þar áhrifa mikil ásamt einstaklingum sem hafa verið að fjalla um þessi mál. Fólk er að verða meira meðvitað um að þrátt fyrir allt ríkidæmið, þá eru húsin sem byggð hafa verið á fyrriparti síðustu aldar arfleið okkar og menningararfur. Við verðum að koma fram af virðingu við þessa arfleið og kannast við hana þótt hún sé ekki fólgin í glæsihöllum. Bárujárnið, lág hófstemmd hús sem sum hver voru og eru mjög falleg og ríkulega skreytt.
Ég treysti vel Reykjavíkurborg til að standa vel að uppbygginu húsanna við Laugaveg og gera það að myndarskap eins og t.d. húsin við Aðalstræti.
Stjórnmál snúast um framfarir og breytingar. Fólkið sem er á sviðinu hverju sinni, er þar að vinna að hugsjón og góðum vilja. Í eðli sínu eru það einkenni lýðræðis að fram fer eins konar málamiðlun oftast, ekki algilt. Ég ber virðingu fyrir öllu þessu fólki sem er að fórna tíma sínum og kröftum. Neikvæða myndin sem birtist okkur í fjölmiðlum síðust daga er afskræming þessa veruleika. Í mínum huga skiptir það ekki höfuð máli hverra flokka þetta fólk er, það er allavega að vinna að framgangi samfélagsins. Það má ekki gleymast. Fólkið sem situr heima og hefur skoðanir, en hefur aldrei fórnað neinum tíma til þess að breyta samfélaginu; kröfur þess verða að taka mið af því. Stjórnmálin verða aldrei betri en það fólk sem tekur þátt í þeim. Til að breyta samfélaginu verða því fleiri að stíga fram á sviðið og breyta því til batnaðar.
Verndun gamalla húsa og breytingar á skiplagi eru partur af því. Eitt brýnasta verkefni nýja meirihlutans er að taka upp deiliskipulagið frá tíð R- listans og koma í veg fyrir að ekki endurtaki sig sama ruglið og verið hefur um Laugaveg 4 - 6. Fella út leyfið til að rífa fleiri gömul hús við götuna.
Hús Alþingis dæmi um vel heppnaða endurgerð.
Fallegt handverk sem gleður augað.
Þetta er dæmi um kofa sem margir vilja rífa. Sjáið hvað hægt er að gera húsin fallega upp.
Hér á bloggsíðu minni eru magar greinar um verndun gamalla húsa, vinsamlega skruna niður síðunar sem eru orðnar nokkuð margar. Njótið lestursins.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2008 | 17:02
Geta stjórnvöld boðið sig fram til Öryggisráðs SÞ eftir dóm Mannréttindanefndar SÞ ?
Hvernig má það vera að íslensk stjórnvöld sem bjóða sig fram til Öryggisráðs Sameinuðuþjóðanna geti hundsað úrskurð einnar af lykilnefndum þeirrar stofnunar ? Eins og kunnugt er hefur Mannréttindanefnd Sameinuðuþjóðanna úrskurðað um að brotið hafi verið á rétti tveggja sjómanna og þeim skuli dæmdar bætur og þeim tryggður réttur að auðlindinni.
Er það trúverðugt að stjórnvald sem brýtur á mannréttindum geti verið í framboði til Öryggisráðs SÞ ? Teljið þið að ríkisstjórnir sem hafa farið með völd hér væru tilbúnar að styðja slíkt framboð ?
Því hefur verið haldið fram í umræðu að okkur beri ekki að taka niðurstöðuna mjög alvarlega og hún sé ekki þjóðréttarlega bindandi. Ýmsir talsmenn samtaka sem hafa hag að því að viðhalda þessu kerfi hafa látið duglega í sér heyra og talið allt til foráttu að þessu verði breytt þrátt fyrir úrskurðinn. Ég vona bara að það verði ekki hlutverk núverandi ríkisstjórnar að senda eins konar bréf um það að þetta verði skoðað með tilliti til athugasemda Mannréttarnefndar.
Ef ríkisstjórnin dregur ekki framboð sitt til baka, verður hún þá ekki eins og aðrar ríkisstjórnir í þessum heimi sem troða á mannréttindum og fara sínu fram. Ríkisstjórnin verður fyrst að koma þessu í lag, áður en framboð Íslands til Öryggisráðs SÞ verður trúverðugt. Þá tel ég rétt að lögmenn þessara sjómanna kynni þátttökuþjóðum úrskurðinn, þannig að ákvörðun ríkisstjórna annarra landa um kosningu Íslands í Öryggisráðið verði upplýst ákvörðun.
Menning og listir | Breytt 23.1.2008 kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2008 | 21:44
Er skoðanakönnun Fréttablaðsins um hvort rífa skuli húsin við Laugaveg 4 - 6 marktæk
Er lýðræðið það fullkomið á Íslandi að skoðanakönnun Fréttablaðsins um það hvort rífa skuli húsin við Laugaveg 4 - 6 geti leit til þess að húsin verði rifin ? Eða áskorun SUS til menntamálaráðherra um að hafna tillögu húsfriðunarnefndar ?
Ekki man ég eftir því fyrr að stjórnmálasamtök ungs fólks hafi það á stefnuskrá sinni að rífa gömul hús fyrr en nú. Þetta er framtíðafólkið sem ætlar að taka við á stjórnmálasviðinu á þessari öld. Það er engin furða þótt maður verði nærri kjaft stopp. Þetta er unga fólkið sem alið er upp við tölvur, hefur fengið nánast allt í sýnar hendur til æðis og klæðis. Helsta markmið þess er að standa vörð um að rífa þessi gömlu hús sem í heila öld hafa staðið þar og þjónað samborgurum okkar. Verið upphaf að götumynd Laugavegs og eru greipt í huga allra þeirra sem komnir eru til vits og ára.
Hvað varðar samþ. húsfriðunarnefndar þá er það fullkomlega á hennar sviði að hafa skoðun á því hvað byggt er að húsinu á horni Laugavegs og Skólavörðustíg sem er friðað. Þetta nýja hótel sem búið er að teikna á lóðina Laugaveg 4 - 6 er allt of há bygging og mun skerða sólarbirtu á gangstéttum götunar þar sem húsið liggur. Þá er þetta hús úr öllum takt við hornhúsið friðaða. Það kæfir þetta gamla hús. Þess vegna eru a.t.h. húsfriðunarnefndar fullkomlega eðlilegar og réttmætar, um það er engin vafi í mínum huga. Byggingarnefnd getur ekki samþ. hús á reitinn ( Laugaveg 4 - 6 ) nema að taka tillit til þeirra sem fara með friðun húsa í þessu landi. Eins konar handvön er í þessu ferli hvað þetta varðar hjá byggingarnefnd.
Ég vil skora á menntamálaráðherra að samþ. að húsin verði friðuð. Unga fólkið í SUS mun bara byggja sinn nýja Laugaveg í nýjum hverfum og börn og barnabörn þess mun þá í anda foreldra sinna kjósa um það á stjórnmálafundum hvort eigi að rífa verkin þeirra og afmá fyrir framtíðinni. Eða var þetta ef til vill bara venjulegur bjórfundur í svona samtökum kostað af einkafyrirtæki og það varð að koma eitthvað merkilegt frá fundinum ?
Loks tel ég það ekki hlutverk fjölmiðla að nota skoðanakönnun á þennan hátt sem gert var í Fréttablaðinu. Það er hægt að spyrja hvort þú styður tiltekin stjórnmálaflokk ( þar er fólk sem kemur og fer ). En þegar verið er að fjalla um gömul hús sem ekki er hægt að endurnýja þegar búið er að rífa þau og farga öllu efni húsanna. Aldrei verður hægt að endurlífga slík menningarverðmæti þau eru glötuð um alla framtíð.
Þetta eru sárin sem skilin eru eftir
í götumynd Laugavegs.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2008 | 17:51
Það er enn hægt að bjarga húsunum við Laugaveg 4 - 6
Morgunblaðið í dag birtir frétt af rausnarlegu tilboði um endurbyggingu húsanna við Laugaveg 4 - 6 á forsíðu. Anna Sigurlaug Pálsdóttir heitir þessi kona sem býður svo höfðinglega. Ég verð að játa að hjartað tók kipp þegar ég heyrði af þessu tilboði. Hugsunin var, já núna verður þessum húsum borgið. Við lesturinn í Morgunblaðinu og eftir að hafa heyrt í borgarstjóranum unga þá var þessi gleði mín minni. Er það þá þannig þrátt fyrir þetta höfðinglega tilboð að ekki verði mögulegt að endurbyggja húsin á Laugaveginum vegna þess að búið er að klúðra öllu þessu máli frá upphafi ? Nú reynir á nýja meirihlutann í Reykjavík að sýna að hann sé þess megnugur að leiðrétta þetta mál og fella úr gildi skipulagstilögunar frá R listanum sem kom þessu öllu af stað. Það á skilyrðis laust að varðveita sem flest hús við Laugaveginn þannig að götumyndin haldist óbreytt um næstu framtíð. Þetta verður vin í steinsteypu og glersamfálaginu sem er að verða til á þessari öld. Menningararfur. Allt tal um kofa og rífa kofana við Laugaveginn, er ekkert annað en að hafna þeirri arfleið sem við höfum vaxið upp frá og skilað hefur okkur auðlegðinni sem við búum nú við .
Ég vil þakka sérstaklega þetta rausnarlega boð Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur hvort það verður endurbyggt á staðnum eða húsin flutt og endurbyggð í Hljómskálagarðinum eins og borgarstjórinn ungi talaði um. Þetta mál er prófsteinn á nýja meirihlutann í borginni. Þá vil ég minna á glæsilega lausn sem varð á málum húsanna við Austurstræti. Það verður að ná þessari lóð aftur ( Laugaveg 4 - 6 ) með kaupum eða eignaupptöku vegna hagsmuna almennings. Borgarfulltrúar hvar í flokki sem þið eruð komið þessum málum í lag !
Menning og listir | Breytt 9.1.2008 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2008 | 21:36
Laugavegur 4 - 6 enn og aftur
Tíðindi gærdagsins eru bæði sorg og gleði vegna húsanna við Laugaveg 4 - 6 sem til stóð að rífa í gærmorgun. Hin nýskapaði borgarstjóri sem vann að því að búa til aftökulista húsa við Laugaveginn ( ásamt öðrum hagsmunaaðilum í tíð R- listans ) og var forsendan fyrir rifi og uppbygginu nýrra byggingar hótels, hann sá að sér. Fyrrverandi meirihluti sjálfstæðismanna vísaði til þessarar skipulagstilögu þegar heimilað var að byggja á reitnum að nýju og var þar með búin að fyrra sig því að eyðileggja sögulega mynd götunnar.
Það að flytja húsin í Hljómskálagarðinn er á margan hátt skemmtileg hugmynd sem Hrafn Gunnlaugsson er höfundur að. Ef ég man rétt þá kom þetta fram í mynd sem hann gerði um þróun borgarinnar um hugmyndir sýnar, ofhlaðin háhýsum og mikilmennsku. Eina sem ég sé við þessa hugmynd er að í framtíðinni væri hægt að flytja húsin aftur til síns fyrri staðra. Ég hef þá trú að í framtíðinni verði götumynd Laugavegar verðmæt vegna margbreytileika og hóflegar húsa með sér íslenskan byggingarstíl eins og bárujárnið. Eins og ég hef lýst hér fyrr í skrifum mínum um friðun húsa við Laugaveginn, möguleikum og sóknarfærum til að skapa eldri húsum nýjan tilgang. Vísa ég því til þeirra skrifa og set krækjur inn sem ekki hafa tíma til að skruna um bloggsíðuna.
Ég hef verulegar áhyggjur af að síðasti sólarbletturinn við Laugarveginn sé að hverfa með nýju byggingunni sem verður reist þar. Afskaplega er notalegt að hægja á ferð sinni nánast á öllu tímum ársins þegar sólar nýtur við og njóta ylsins og birtunnar sem hefur verið þarna. Á myndum sem ég set hér inn með þessum hugleiðingum má glögglega sjá hvað birtan er þarna mikilvæg. Myndirnar eru teknar á þeim tíma þegar sól er hæst á lofti og birtan flæðir um alla skuggabletti.
Hótelbygging á þessum stað er slys. Ekkert rými er til að taka við ferðamönnum og rútum sem spúa díselreyk yfir umhverfið, þar sem gangstéttin teppist meðan verið er að hlaða töskum ferðamanna á götuna o.s.f.v.. Það er einfaldlega ekki rými fyrir hótel við Laugaveginn enda þótt búð sé að byggja eitt ofar við götuna. Gatan á að vera miðstöð þjónustu og menningar en ekki hótelgata.
Þannig verða þessi hús trúlega flutt á dauðadeildina út á Granda eins og ég hef kallað það.
Þar geta þau næstu misserin norpað í norðannepjunni, slitin úr öllu samhengi við umhverfi sitt.
Endurbygging húsanna í Hljómskálagarði er vandasöm og verður dýr, en ég treysti borginni til að standa að því og gera það vel, það sanna húsin við Aðalstræti.
Betra væri að þetta hefði aldrei orðið og húsin fengið að vera áfram á sínum reiti.
Takið eftir hvað skugginn breiðir sig út á götuna. Nýja húsið verður í sömu hæðarlínu með mæninn og gula húsið á myndinni. Myndin er tekin þegar sól er hæst á lofti. Það er auðvelt að sjá fyrir að nýja húsið mun mynda skugga á gangstéttina handan götunnar mestan part ársins.
http://ofansveitamadur.blog.is/blog/ofansveitamadur/entry/284920/
http://ofansveitamadur.blog.is/blog/ofansveitamadur/entry/292937/
Myndirnar eru teknar 15. júlí 2007 kl: 13:54.
Menning og listir | Breytt 9.1.2008 kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)