100 hestavísur - minningabrot

Það var á tímabilinu '62 - '63 að elsti bróðir minn sem var mikill áhugamaður um hesta keypti bók sem hét 100 hestavísur.  Þarna voru margar skemmtilegar vísur.  Bókin var í litlu broti, þannig að auðvelt var að setja hana í vasa.  Mér fannst bróðir minn heldur hafa himininn höndlað.  Ekki lágu aura á lausu á þessum árum.  Hvað þá heldur í annan eins hégóma.  Eiginlega hef ég dálítið öfundað hann af þessu framtaki svona eftir á að hyggja.  En ég komst í bókina fyrir rest og einsetti mér að læra öll lóðin.  Sem ég og gerði.  Átti nokkuð gott með að læra ljóð.  Þannig bjó ég að þessu lengi vel og gat á góðra vina fundi sungið af þessum fjársjóði. 

Dag einn í fyrra á leið minni austur fyrir fjall, fór ég að hugsa um þetta.  Hvað skildi ég muna enn af þessum vísum.  Eftirtekjan var ekki mikil.  Reyndar mundi ég eiginlega uppáhalds vísuna hún var svona.

Ég hef selt hann yngri rauð

er því sjaldan glaður

svona er að vanta veraldar auð

og vera drykkju maður.

Þar sem ég leið áfram á löglegum hraða braut ég höfðið um þetta og amma mín kom inn í þessa hugsun.  Þannig var að ég naut aldrei þeirrar blessunar að hitta ömmur mínar, þær voru báðar látnar þegar ég fæddist.  Allavega var þetta svona, ef til vill var blessunin með mér að passa mig á þessu ferðalagi; enda tók ég nafn af henni.  Í þessum þönkum varð til ljóðið um ömmu og rauð sem er að sjálfsögðu skáldskapur og ekkert tengt lífi ömmu minnar.

 

Rauður og amma mín

 

Amma mín hún elskaði Rauð

alla sína daga,

nú er ævin orðin snauð

ástin dáin út í haga.

 

Afi minn ásakaði Rauð

ástleysi sinnar ævi

sem færði honum heimsins auð

og flest veraldar æði.

 

Ríður nú reistum makka

Rauður og amma mín

guð hvað ég þér þakka

Það að hún er komin til þín.

 

Veiðilöndum nú vakir hjá

vötn og grundir tala

syngur í hófum syndlaus þrá

sólfextum dögum nú Rauð ala.

              Ólafur H. Einarsson  2006

 

Ekki skal ég fyrir það sverja að ég hafi ekki heyrt viðlíka byrjun á ljóðinu áður, þannig hafa allar þessar 100 hestavísur ruglað mig í rýminu.  Það er samt gaman að rifja þetta upp og annars undarlegt hvað tíminn líður hratt, þótt andartak sé síðan að ég las 100 hestavísur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband