Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ekki afskræma meira gamala miðbæinn í Reykjavík

HPIM6991Enn á að fara að reyna að afskræma gamla miðbæinn.  Nýjasta er að efna til samkeppni arkitekta um miðbæjarreitinn.  Ég var að vona á Vilhjálmur gæti haldið sjó með hugmyndina um uppbygginguna á þessu svæði, en eitthvað er farið að vatna undan því.  Enda þótt gott væri að fá sátt um hvernig við viljum varðveita gamla bæinn, þá hræða sporin.  Lítum nú á hvernig miðbæjarmyndin er á húsunum við Lækjargötu og Austurstræti.  Þar sem áður stóð Nýjabíó var byggt hús sem nú orðið er kennt við Iðu ( verslunina Iðu ).  Iðu húsið er að mínu mati algert slys í þessu umhverfi svo ekki sé minnst á húsið við hliðina.  Þetta er algerlega misheppnað og Iðuhúsið er eins og ofviti í þessu umhverfi. 

 

Húsin sem slík eru á vissan hátt fallegur arkitektúr, en passa engan vegin inn í þessa gömlu götumynd og eru slys sem slík.  Þau hefðu sómt sér vel í nýjum hverfum þar sem byggt er á sambærilegan hátt, en ekki í götumynd bárujárnshúsa.  Þessu má líkja við Morgunblaðshúsið sem ég man vel eftir, þegar það var byggt.  Hús sem er í algerri mótsögn við umhverfið sitt.  Ég hefði gjarna vilja hafa gamla Biskupshúsið áfram, en ekki upp á Árbæjarsafni; marghrunið og endurbyggt úr fjölunum sem eftir voru heillegar.

Þá hefði átt að byggja hús sem félli að götumynd þessarar gömlu húsa, á reitinn þar sem Nýjabíó var; en ekki þennan ofvaxna ofvita.  Sporin hræða í þessu efnum og hagsmunir þeirra sem vilja græða á öllu sem gert er, leiða þessa þróun; með öfugum formerkjum.  Vegna þessa alls hef ég ótrú á að út úr þessu komi eitthvað boðlegt.  Teiknaðar verða örugglega háar glerbyggingar í anda Tónlisthússins, sjáum til hvað kemur úr skjóðu kellingar.  Þá óttast ég að byggingarnar verði það háar að sólarljósið sem vermir í Austurstræti við Lækjartorg verði líka skyggt, líkt og húsið sem byggt var á reitnum þar sem Stjörnubíó stóð.  Húsið þar er það hátt að aðeins er þar smá ræma sólarljós við húsið handan götunar.  Viðmið hæðar húsa verður að taka mið af því þegar sól er lægra á lofti en ekki við bestu skilyrði. 

 

Því vil ég skora á Vilhjálm borgarstjóra að halda fast við hugmynda um að byggja húsin í sem upprunalegustu mynd sinni.  Miðbæjarmyndin sem við flest viljum varðveita.  Við getum um allan heim séð glerhallir og nútímabyggingar, en hvergi þessi gömlu hógværu hús sem eiga svo mikið í okkur og geyma sögu okkar og arfleið.  Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir slíka arfleið.


Stríðsraunir og glötuð líf

Nú fer að styttast í því tímabil þegar Bush og Tony Blair kveðja svið stjórnmála.  Fréttin sem hér vísar til sýnir hvað stríð eru mikill harmleikur, þeir sem fara fram með stríð og þeir sem verða fórnarlömb þess. Allir virðast tapa, en sagan mun dæma þá kumpána frekar. Þegar bandamenn ákveða að fara inn i Kosovo á Balkanskaga varð þetta til.  Þetta er meira söngtexti og hef ég samið lag við það, sem hægt væri að fá hjá mér ef áhugi væri fyrir því.

 

Heimsins böl 

Ég hugleiði sjaldan

vort heimsins böl

hvað kvik er sú alda

sem veldur oss kvöl

og tíminn er taminn

af taumlausri þörf

og trúleysi laminn

við aldar vor hvörf.

 

Þeir hugsa í stríði

um ,,Stormsins" laun

Stelt og Tomahawk

þótt líði þeir kvöl

og allt er þeim gefið

á himni og jörð

þér lítt trúaðir efið

þótt mengi þeir svörð.

 

Og allt er hér notað

og allt er þeim kvöl

sem líða að morgni

leiðtoganna böl,

ég hugsa ekki lengur

heldur lifi hvern dag

og hlusta á lífið

og mófuglanna kvak.

 

Brátt er mér borgið

og búin mín tíð

ég beisla nú vindinn

í fjallsins hlíð

og fuglar himins

nú fanga minn hug

og fögnuður dagsins

vísar á mannsins dug.

 

Ég elti ekki lengur

lífsins stríð

né lokka og kjörin

sem ég fyrir nú líð,

þótt véli þeir lífið

í valllendi er sáð

þú græðir mig örum

og eflir að dáð.

 

Og allt er hér notað

og allt er þeim kvöl

sem líða að morgni

leiðtoganna böl.

       Ólafur H. Einarsson  2000

 


mbl.is Bush vottar föllnum hermönnum virðingu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100 hestavísur - minningabrot

Það var á tímabilinu '62 - '63 að elsti bróðir minn sem var mikill áhugamaður um hesta keypti bók sem hét 100 hestavísur.  Þarna voru margar skemmtilegar vísur.  Bókin var í litlu broti, þannig að auðvelt var að setja hana í vasa.  Mér fannst bróðir minn heldur hafa himininn höndlað.  Ekki lágu aura á lausu á þessum árum.  Hvað þá heldur í annan eins hégóma.  Eiginlega hef ég dálítið öfundað hann af þessu framtaki svona eftir á að hyggja.  En ég komst í bókina fyrir rest og einsetti mér að læra öll lóðin.  Sem ég og gerði.  Átti nokkuð gott með að læra ljóð.  Þannig bjó ég að þessu lengi vel og gat á góðra vina fundi sungið af þessum fjársjóði. 

Dag einn í fyrra á leið minni austur fyrir fjall, fór ég að hugsa um þetta.  Hvað skildi ég muna enn af þessum vísum.  Eftirtekjan var ekki mikil.  Reyndar mundi ég eiginlega uppáhalds vísuna hún var svona.

Ég hef selt hann yngri rauð

er því sjaldan glaður

svona er að vanta veraldar auð

og vera drykkju maður.

Þar sem ég leið áfram á löglegum hraða braut ég höfðið um þetta og amma mín kom inn í þessa hugsun.  Þannig var að ég naut aldrei þeirrar blessunar að hitta ömmur mínar, þær voru báðar látnar þegar ég fæddist.  Allavega var þetta svona, ef til vill var blessunin með mér að passa mig á þessu ferðalagi; enda tók ég nafn af henni.  Í þessum þönkum varð til ljóðið um ömmu og rauð sem er að sjálfsögðu skáldskapur og ekkert tengt lífi ömmu minnar.

 

Rauður og amma mín

 

Amma mín hún elskaði Rauð

alla sína daga,

nú er ævin orðin snauð

ástin dáin út í haga.

 

Afi minn ásakaði Rauð

ástleysi sinnar ævi

sem færði honum heimsins auð

og flest veraldar æði.

 

Ríður nú reistum makka

Rauður og amma mín

guð hvað ég þér þakka

Það að hún er komin til þín.

 

Veiðilöndum nú vakir hjá

vötn og grundir tala

syngur í hófum syndlaus þrá

sólfextum dögum nú Rauð ala.

              Ólafur H. Einarsson  2006

 

Ekki skal ég fyrir það sverja að ég hafi ekki heyrt viðlíka byrjun á ljóðinu áður, þannig hafa allar þessar 100 hestavísur ruglað mig í rýminu.  Það er samt gaman að rifja þetta upp og annars undarlegt hvað tíminn líður hratt, þótt andartak sé síðan að ég las 100 hestavísur.

 


Gamla Reykjavík og Árni Óla

Aðalstræti 10 Eftir að við hjónin höfðum skilað yngsta dregnum okkar í unglingabúðir um hvítasunnuhelgina þá fórum við í Góða hirðirinn.  Ég hef aldrei komið þarna áður.  Það var margt um manninn og alls konar hlutir sem eru nýtilegir aftur.  Vissulega ánægjulegt að vita að hlutir sem við förum með í Sorpu að þeim sé komið aftur til gagns.  Fljótlega rekst ég á bókahillur fullar af ódýrum bókum í mjög góðu ásigkomulagi.  Þarna er hægt að ná í hina fjölbreyttustu titla.  Hægt var að fá Íslendingasögurnar á kr. 300 st., Ragnheiði Brynjólfsdóttur tvö bindi bókin á kr. 200 st.  Þarna er heilmikið af afþreyingar bókum.  Konan mín fann t.d. bók sem mig hefur lengi langað að eignast eftir Árna Óla ,, Sagt frá Reykjavík " þá fékk ég mér bók eftir Thor Vilhjálmsson ,, Hvaðan er San Marino ".

Eftir að ég fór að glugga í fyrra í Íslenskt Mannlíf ( fjögur bindi ) vaknaði áhugi minn fyrir gömlu Reykjavík, öllu því margbreytilega manlífi sem fyllti bæinn og gerir enn.  Ég man vel eftir greinum Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins um Reykjavík.  Það var á þeim árum þegar ,,lesbókin" stóð undir nafni og til var Bæjarbókasafn Reykjavíkur, sem ég reyndar stundað nokkuð á þeim árum.  Hins vegar las ég aldrei þessar greinar sem eru sjálfsgat óborganlegur fróðleikur um gamla tímann.  Eiginlega var ég maður framtíðarinnar, en ekki innstiltur á það liðna.  Þannig breytist maður, já er það ekki kallað að þroskast. 

Ég er fæddur og uppalin í Þingholtsstræti og man nokkuð eftir gömlu Reykjavík.  Götumyndin þegar Haukur pressari var að labba með þunga og stóra straujárnið í Lækjargötunni og sér Bjarni að taka ofan fyrir virðulegu fólki.  Það var meiri ró yfir bænum í þá daga og það sem rauf helst kyrrðina voru flugvélar eins og DC 3 og ískrið í Kolakrananum þegar hann var á ferðinni.  Ég hlakka mikið til að geta sökkt mér í þessa nýjustu bók mína um Reykjavík.  Þá eru mjög skemmtilegar teikningar ( tússteikningar ) af húsum sem fylla enn betur upp í minnið um gömlu húsin okkar allra.  Mig blóðlangar til að láta fylgja hér eina af þessum myndum með þessum skrifum, þá til að glæða áhuga ykkar er kunna að lesa  þetta og viljið ná í bækurnar hans Árna Óla. Efst í huga mér er þakklæti til hans fyrir þessi skrif sem munu vera og eru bautasteinar í sögu borgarinnar.

Hér tel ég upp nokkra af bókum Árna Óla :  Fortíð Reykjavíkur 1950.  Gamla Reykjavík 1954.  Skuggsjá Reykjavíkur 1961.  Erill og ferill blaðamanns 1963.  Horft á Reykjavík 1964 og loks Sagt frá Reykjavík sem ég hef nefnt hér að ofan.  Þá Reykjavík fyrri tíma, þrjú bindi sem var gefið út af Skuggsjá 1984-'86.  Þá má öruggt telja að nokkrir titlar liggi óbættir hjá garði í þessari upptalningu. 

Fyrst ég er komin á flug með þetta þá læt ég hér fljóta með ljóð sem ég gerði um ,, Móðurást", en það er reiturinn hjá Miðbæjarskólanum; við Lækjargötu og Bókhlöðustíginn.  Þarna áttum við krakkarnir margar yndisstundir.  Þarna var leikvöllur þess tíma með sandkössum og öðru sem tilheyrir svoleiðis reiti.  Móðurást heitir styttan sem er þarna og í þá daga var það heiti með sæmd.  Nú er reiturinn orðin meiri lystigarður og allur grónari en var í þá daga.

 

MÓÐURÁST

 

Mitt í miðbæjarins erli

Móðurást oss varstu kær

varstu kannski vísbending í ferli

sem veröldin gleymdi í gær.

 

Styttan af þér steind í kopar

stendur áranna elfur geymd

minning mér í huga hopar

mæðist ásjóna eftirvill gleymd.

 

Börn bjástruð í þínum reiti

byggðu kastala og vegi

þá spurði engin um stöðu né heiti

störfuðu allir unz hallaði af degi.

 

Daglangir kossar dofnuðu fljótt

dagssetningar skyldu heim sóttu

nú er þar næstum allt hljótt,

aðeins niður umferðar fram á nótt.

 

Hvar er hláturinn og gleðiköllin

hlýju raddirnar sem saman sungu

eða þríhjólin sem geystust um völlinn

eins var um hjörtun ungu.

 

Í gær gaut ég að þér auga

grænleit ásjóna þín var

sennilega telur einhver mig spauga

spanskgrænan þig ofurliði bar.

 

            Ólafur H. Einarsson 1978

 

Ég læt hér staðar numið að sinni, en fastlega má gera ráð fyrir að ég tali meira um gömlu Reykjavík og láti fylgja með ljóð mín um hana sem ég hef setið á.

 


Er boðlegt að fyrirtæki borgi fyrir blautar sögur með auglýsingum ?

Er boðlegt að fyrirtæki fari að borga fyrir blautar sögur eða hálfblautar með auglýsingum á bloggsíðum.  Mér finnst það ekki boðlegt, þvílík lákúra.  Nær væri að ráða slíka penna til að skrifa Rauðar seríur eða hvað það heitir hjá einhverju  forlagi.  Eins er hvernig sumir leitast við að ná athygli á blogginu með tvíræðum fyrirsögnum.  Ég á þá von að fólk fái athygli á greinarskrifum sínum fyrir áhugavert innihald, jafnvel þótt fólk tali um sjálfan sig og sína nánustu; t.d. tilfinningar eða líðan.  Við erum öll mannleg og líðan okkar skiptir máli.  Þá finnum við til samkenndar og viljum senda hlýjar hugsanir þegar þörf er fyrir það.

Víkjum þá að hinum hópnum sem náð hefur miklu innlit á síður.  Þar eru launaðir blaðamenn jafnvel ritstjórar á fullum launum.  Þarf að greiða þeim fyrir skrif með auglýsingum  sem gætu verið skrifuð í vinnutíma á virðulegu blaði.  Eða jafnvel rithöfundar sem þiggja listamannalaun ég veit ekki, varpa þessu svona fram. 

Það er vissulega erfitt að feta einstigi í þessum efnum, en burt með lágkúruna.  Þetta framtak að greiða fyrir auglýsingar á blogginu er ekki slæmt í sjálfu sér, ég gæti alveg þegið það ef svo bæri undir ; en ekki fyrir lágkúruskrif.     


Ekkert blót á blogginu - áskorun

Skelfing er leiðinlegt allt blót og ragn.  Fyrirsögn eins og Ingvi Hrafn ( Hrafnaþingsmaður ) og fleirri hafa verið með hér  á blogginu.  Mér finnst fólk setji niður þegar það viðhefur blót í fjölmiðlum almennt.  Fyrir utan það þá særir það mig ( í trúarlegum skilningi ) og er vont fordæmi fyrir okkur öll, gagnvart börnunum okkar og barnabörnum o.s.f.v..

Tökum saman um það að úthýsa öllu blóti af þessum miðli og öðrum.  Ég veit að við viljum ekki samfélag sem upphefur slík gildi.

Ágætu bloggara og aðrir landsmenn hættum að blóta og leggjum rækt við hin góðu gildi og fordæmi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband