Færsluflokkur: Ferðalög
19.6.2007 | 08:16
Esjan lífið og ég - hugleiðing um fjallið okkar
Esjan roðaslegin í kvöldsólinni er kunnuleg sjón. Það var liðið á sumarið og gróður í hlíðum fjallsins farinn að taka á sig kynja myndir. Kvöldin farin að styttast og skýhnoðrar farnir að hylja fjallstoppinn. Héngu í festunum, eins og fallega máluð ský á málverki. Ég var þreyttur af daglegu amstri horfi og út um gluggann. Þannig er umhverfi þessa ljóðs sem ég samdi á haustdögum 1997.
En það er líka hægt að setja það í sambandi við komandi jónsmessunótt. Bara horfa og nærast af kraftinum sem af fjallinu fer. Hugsa um björtu næturnar sem við lifum núna og eftirvill muna ljóðið mitt.
Esjan lífið og ég
Hvítur klæðist hákollur Esju
hljóð eru morgun sporin,
gengur af gráum nípum
grænar eru lautir á vorin.
Klæðist þá köldum bláma
kossar skýjum unaði lítur,
umhverfist allt hennar fas
órói tímas er slíkur.
Kvöldin eru köllun að una
kyssir roðinn hvern stein,
misfellur og lautir sig muna
minnast við hverja hlein,
en skuggar og skýjasalir
skreyta hvern fífil ég þar kann
og aldrei sem á helli æfi
ég unað slíkan fann.
Á sumarnóttum ég seiðinn tók
er ærði svefnsins drunga,
nótt eftir nótt huga minn skóp
náttúran eilífa unga.
Í leit minni að lífsins gæðum
líka ég oft missti sjónar af þér,
og á stundum, er ég þá hugsun finn
þar í hæstu hæðum,
hvíli ég huga minn.
Ólafur H. Einarsson 1997
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2007 | 12:11
100 hestavísur - minningabrot
Það var á tímabilinu '62 - '63 að elsti bróðir minn sem var mikill áhugamaður um hesta keypti bók sem hét 100 hestavísur. Þarna voru margar skemmtilegar vísur. Bókin var í litlu broti, þannig að auðvelt var að setja hana í vasa. Mér fannst bróðir minn heldur hafa himininn höndlað. Ekki lágu aura á lausu á þessum árum. Hvað þá heldur í annan eins hégóma. Eiginlega hef ég dálítið öfundað hann af þessu framtaki svona eftir á að hyggja. En ég komst í bókina fyrir rest og einsetti mér að læra öll lóðin. Sem ég og gerði. Átti nokkuð gott með að læra ljóð. Þannig bjó ég að þessu lengi vel og gat á góðra vina fundi sungið af þessum fjársjóði.
Dag einn í fyrra á leið minni austur fyrir fjall, fór ég að hugsa um þetta. Hvað skildi ég muna enn af þessum vísum. Eftirtekjan var ekki mikil. Reyndar mundi ég eiginlega uppáhalds vísuna hún var svona.
Ég hef selt hann yngri rauð
er því sjaldan glaður
svona er að vanta veraldar auð
og vera drykkju maður.
Þar sem ég leið áfram á löglegum hraða braut ég höfðið um þetta og amma mín kom inn í þessa hugsun. Þannig var að ég naut aldrei þeirrar blessunar að hitta ömmur mínar, þær voru báðar látnar þegar ég fæddist. Allavega var þetta svona, ef til vill var blessunin með mér að passa mig á þessu ferðalagi; enda tók ég nafn af henni. Í þessum þönkum varð til ljóðið um ömmu og rauð sem er að sjálfsögðu skáldskapur og ekkert tengt lífi ömmu minnar.
Rauður og amma mín
Amma mín hún elskaði Rauð
alla sína daga,
nú er ævin orðin snauð
ástin dáin út í haga.
Afi minn ásakaði Rauð
ástleysi sinnar ævi
sem færði honum heimsins auð
og flest veraldar æði.
Ríður nú reistum makka
Rauður og amma mín
guð hvað ég þér þakka
Það að hún er komin til þín.
Veiðilöndum nú vakir hjá
vötn og grundir tala
syngur í hófum syndlaus þrá
sólfextum dögum nú Rauð ala.
Ólafur H. Einarsson 2006
Ekki skal ég fyrir það sverja að ég hafi ekki heyrt viðlíka byrjun á ljóðinu áður, þannig hafa allar þessar 100 hestavísur ruglað mig í rýminu. Það er samt gaman að rifja þetta upp og annars undarlegt hvað tíminn líður hratt, þótt andartak sé síðan að ég las 100 hestavísur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 00:48
Ekkert blót á blogginu - áskorun
Skelfing er leiðinlegt allt blót og ragn. Fyrirsögn eins og Ingvi Hrafn ( Hrafnaþingsmaður ) og fleirri hafa verið með hér á blogginu. Mér finnst fólk setji niður þegar það viðhefur blót í fjölmiðlum almennt. Fyrir utan það þá særir það mig ( í trúarlegum skilningi ) og er vont fordæmi fyrir okkur öll, gagnvart börnunum okkar og barnabörnum o.s.f.v..
Tökum saman um það að úthýsa öllu blóti af þessum miðli og öðrum. Ég veit að við viljum ekki samfélag sem upphefur slík gildi.
Ágætu bloggara og aðrir landsmenn hættum að blóta og leggjum rækt við hin góðu gildi og fordæmi.
Ferðalög | Breytt 24.5.2007 kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)