Rauntíma verðsamanburður og verðlagseftirlit – ný nálgun

 HPIM1628

Rauntíma verðsamanburður, er það gerlegt ? Nútíminn er flókið fyrirbæri svo ekki sé meira sagt.  Hann krefur okkur til að gera verðsamanburð og leita hagstæðustu kjara, þar sem við lifum á tímum frjálsrar álagningar og í samkeppnissamfélagi.  En er gerlegt fyrir venjulegt fólk að taka þátt í því ?  Við erum hvött áfram af auglýsingum og þarfir okkar búnar til í versta falli.  Tíminn er líka dýrmætur og einhvern veginn verður hann enn dýrmætari eftir því sem árin líða.  Þannig er það líka, alla vegna hjá venjulegu fólki.  Er skynsamlegt að vera að keyra á milli verslana til að bera saman verð á hangikjötsáleggi eða öðrum vörum til að kaupa hagstætt inn. Nei að sjálfsögðu ekki, nema þegar um dýrari vörur er um að ræða, en þá kemur væntanlega fleira til en verðið eitt saman.

 

En er þá þetta svokallaða frjálsa samfélag að virka ( frjáls álagningin ) ?  Já, er svarið og verður auðvita það, - svona á pappírunum.  Þú getur keyrt í Kópavoginn til að fá 30 aurum ódýrara bensín o.s.f.v. sem auðvita er engin sparnaður í, aðeins í versta falli brandari því það kostar meira að keyra bílinn þangað en sem nemur sparnaðinum.

 

Verðlagseftirlit stéttarfélaga ( Alþýðusambands Íslands ) og annarra sem sjá um þessa hluti er líka hálfgerður brandari.  Verði er breytt daginn út og daginn inn í sömu verslunum.  Jafnvel auglýstar vörur í blöðum og dreifibæklingum, eru ekki á því verði þegar maður kemur til að kaupa það  ( þetta hafa trúlega margir reynt ).  Þannig er hin venjulegi maður varnalaus gagnvart tölvuvæðingunni sem orðin er í samfélaginu, sem breyta verðlaginu með ljóshraða.  Öll hlaupin geta því orðið tilgangslaus eða tilgangslítil.  Þá er algengt að örfá stykki af vörunni eru bara til sem auglýst er og þannig notuð til að laða að kaupendur, sem grípa síðan í tómt.

 

En hvað er til ráða ?  Ég er þeirrar skoðunar að koma verði upp netsíðum og sem safna saman verðlagi og bera saman verðlag.  Æskilegt er að verkalýðshreyfingin fari fram í þessum efnum.  Hagsmunir launþega verða á næstu áratugum hvað varðar verðlag, miklu stærra hagsmunamál, en sú hagsmunavarsla sem stéttarfélögin standa fyrir í dag.  Ekki þarf endalaust að vera að semja um lengri orlofsrétt o.s.f.v..  Þannig verða stéttarfélögin hálfgerð verðlagslögga til að tryggja kaupmátt umbjóðenda sinna.

 

Ég sé fyrir mér að semja verði við atvinnulífið og löggjafann um að fyrirtæki á markaði birti vöruverð og verðlag á þjónustu á netinu.  Þannig er hægt að bera saman verð einstakra vöru og sýna þróun verðs til hækkunar eða lækkunar.  Verðlagseftirlit í dag skilst mér vera fólgið í því að fólk er sent í verslanir og skráir verð vöru með þar til gerðum tækjum ( tölvur eða skráð á blað ).

 

Hér er lítið dæmi til glöggvunar.  Bónus, Hagkaup, Krónan, Nóatún, o.s.f.v. birta á vefum sínum verðin t.d. á innfluttri baunadós af tilteknu vörumerki ( sem fæst í all flestum búðum sem selja matvöru ).  Á verðlagssíðu Alþýðusambandsins getur þú valið vöru í undirflokkum t.d. baunir.  Þar er gerður samanburður á þessum verðum.  Fundið hæsta og lægsta verðið.  Jafnframt verður að gera þá kröfu að seljendur ( matvöruverslanir í þessu dæmi ) birti með vöruverðinu hvaða álagning er á vörunni.  Þannig virkar það hvetjandi að eðlileg álagning kom fram og neytandinn geti áttað sig á hvar græðgin er við völd ef svo má að orði komast. 

 

Þá er hægt að taka saman matkörfu (ur) og finna út hagstæðustu innkaupin og versla þannig hagkvæmt.  Þetta er með öðrum orðum að tölvutækninni verði beitt í þágu neytenda og almennings.  Forskoti tölvutækninnar er snúið við og nýtt almenningi í hag, en ekki bara stórfyrirtækum sem ráða nú þar öllu.  Þetta er einfaldlega verðlagslögga 21. aldarinnar netið sjálft, framkvæmt í rauntíma ( jafnóðum og verð birtast ). 

 

Um endalausa möguleika er að ræða með þess háttar verðsamanburði.  Til þess að þetta verði mögulegt verður að nást sátt um þessa leið.  Það er hægt að gera í kjarasamningum, með löggjafanum, en umfram allt í sátt allra, sem munu þegar fram í sækir verða öllum til hagsbóta. 

 

Mjög líklegt er að verðhjöðnun verði samfara þessum breytingum.  Ef til vill lækkun matvöru, sem nokkuð lengi hefur verið beðið eftir.  Ég vil hvetja launþegahreyfinguna og atvinnulífið til að skoða þessa leið í næstu kjarasamningum, í því er fólgin launahækkun ef vel tekst til.  Trúlega verður erfitt að semja um miklar launahækkanir í komandi kjarasamningum í ljósi þenslu og spennu á vinnumarkaði.  Jafnframt er þetta hvatning til verklýðshreyfingarinnar að snúa sér að nýjum áherslum, enda þótt verðlagseftirlit þeirra sé við líði - eiginlega nýjar áherslur í þeirri vinnu.  Besta kjarabótin er að hér verði verðhjöðnun samfara öflugu atvinnulífi og vinnumarkaði, þar sem samningar og lög eru virt í hvívetna.

 

Þá vil ég taka fram að þessi pistill er á engan veginn eingöngu til að fjalla um verlagssamanburð á matvöru, þetta á við um nánast alla vöru og þjónustu.  Ekki hvað síst opinbera þjónustu þar sem um er einhvers konar samkeppni að ræða.  Rauntíma vöktun og upplýsingagjöf er öllum til hagsbóta og  til hagræðingar.  Til að mynda verðlag þjónustu og vaxtakjör bankanna.  Reyndar birta þeir það á heimasíðum sínum, en það sem á vantar er rauntíma samanburður sem sóttur er á einn stað ( upplýsingasíðu ).

 

Mjög líklega kallar þetta á mikla forritunarvinnu og öllu öðru sem tengist þessu viðfangsefni, bæði kostnaðarlega og að umfangi.  Nú þegar verja verkalýðsfélög og samtök atvinnulífsins miklum peningum og tíma í þess háttar vinnu, einungis vantar samþættinguna í einni veitu.

Þá fær t.d. verkalýðshreyfingin ( ASÍ ) á fjárlögum einar þrjár miljónir til verðlagseftirlits á þessu ári  ef ég hef tekið rétt eftir.

 

Nýlega opnaði vefsíðan Eyjan.is svokallaðan RSS gagnastraum.  Þar er safnað saman upplýsingum af öðrum vefsíðum ásamt efni sem þeir leggja til sjálfir.  Þannig er gerlegt að halda úti upplýsingasíðu ( síðum ) sem miðla ákveðnum upplýsingum ( t.d. fréttir, blogg o.s.f.v. ) á tiltölulega ódýran máta án þess að rekin sé fréttastofa og að baki sé mikil yfirbygging. 

 

Á sama hátt getur verlagseftirlit Alþýðusambands Íslands verið eða annarra sem vildu taka að sér þetta svið.  Eina sem verður að tryggja er eins og ofan sagði að gagnagrunnskerfin verði opnuð ( verðlagshlutinn ) hjá þeim sem veita og selja þjónustu til almennings.  Til þess þarf ný viðhorf og löggjöf.  Þá þarf að tryggja í löggjöf að verð sem sett er fram við opnun verslunar eða á annars konar þjónustu hvern dag, standi til lokunar sama dag.  Verðbreytingar geti ekki orðið meðan.  Verðbreytingar eiga sér stað eftir lokun.  Gagnvart aðilum sem veita þjónustu allan sólarhringinn þá skal miða við miðnætti.

 

Ég er bjartsýnismaður í eðli mínu og tel að þetta verði helsta breyting á samfélagi okkar á næstu árum, til hagsbóta fyrir almenning í þessu landi hvað varðar verðlagsaðhald.  Þetta eru einfaldlega ný viðhorf sem ég set hér fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill.

Marta B Helgadóttir, 4.8.2007 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband