29.5.2007 | 16:42
Stríðsraunir og glötuð líf
Nú fer að styttast í því tímabil þegar Bush og Tony Blair kveðja svið stjórnmála. Fréttin sem hér vísar til sýnir hvað stríð eru mikill harmleikur, þeir sem fara fram með stríð og þeir sem verða fórnarlömb þess. Allir virðast tapa, en sagan mun dæma þá kumpána frekar. Þegar bandamenn ákveða að fara inn i Kosovo á Balkanskaga varð þetta til. Þetta er meira söngtexti og hef ég samið lag við það, sem hægt væri að fá hjá mér ef áhugi væri fyrir því.
Heimsins böl
Ég hugleiði sjaldan
vort heimsins böl
hvað kvik er sú alda
sem veldur oss kvöl
og tíminn er taminn
af taumlausri þörf
og trúleysi laminn
við aldar vor hvörf.
Þeir hugsa í stríði
um ,,Stormsins" laun
Stelt og Tomahawk
þótt líði þeir kvöl
og allt er þeim gefið
á himni og jörð
þér lítt trúaðir efið
þótt mengi þeir svörð.
Og allt er hér notað
og allt er þeim kvöl
sem líða að morgni
leiðtoganna böl,
ég hugsa ekki lengur
heldur lifi hvern dag
og hlusta á lífið
og mófuglanna kvak.
Brátt er mér borgið
og búin mín tíð
ég beisla nú vindinn
í fjallsins hlíð
og fuglar himins
nú fanga minn hug
og fögnuður dagsins
vísar á mannsins dug.
Ég elti ekki lengur
lífsins stríð
né lokka og kjörin
sem ég fyrir nú líð,
þótt véli þeir lífið
í valllendi er sáð
þú græðir mig örum
og eflir að dáð.
Og allt er hér notað
og allt er þeim kvöl
sem líða að morgni
leiðtoganna böl.
Ólafur H. Einarsson 2000
Bush vottar föllnum hermönnum virðingu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2007 | 12:11
100 hestavísur - minningabrot
Það var á tímabilinu '62 - '63 að elsti bróðir minn sem var mikill áhugamaður um hesta keypti bók sem hét 100 hestavísur. Þarna voru margar skemmtilegar vísur. Bókin var í litlu broti, þannig að auðvelt var að setja hana í vasa. Mér fannst bróðir minn heldur hafa himininn höndlað. Ekki lágu aura á lausu á þessum árum. Hvað þá heldur í annan eins hégóma. Eiginlega hef ég dálítið öfundað hann af þessu framtaki svona eftir á að hyggja. En ég komst í bókina fyrir rest og einsetti mér að læra öll lóðin. Sem ég og gerði. Átti nokkuð gott með að læra ljóð. Þannig bjó ég að þessu lengi vel og gat á góðra vina fundi sungið af þessum fjársjóði.
Dag einn í fyrra á leið minni austur fyrir fjall, fór ég að hugsa um þetta. Hvað skildi ég muna enn af þessum vísum. Eftirtekjan var ekki mikil. Reyndar mundi ég eiginlega uppáhalds vísuna hún var svona.
Ég hef selt hann yngri rauð
er því sjaldan glaður
svona er að vanta veraldar auð
og vera drykkju maður.
Þar sem ég leið áfram á löglegum hraða braut ég höfðið um þetta og amma mín kom inn í þessa hugsun. Þannig var að ég naut aldrei þeirrar blessunar að hitta ömmur mínar, þær voru báðar látnar þegar ég fæddist. Allavega var þetta svona, ef til vill var blessunin með mér að passa mig á þessu ferðalagi; enda tók ég nafn af henni. Í þessum þönkum varð til ljóðið um ömmu og rauð sem er að sjálfsögðu skáldskapur og ekkert tengt lífi ömmu minnar.
Rauður og amma mín
Amma mín hún elskaði Rauð
alla sína daga,
nú er ævin orðin snauð
ástin dáin út í haga.
Afi minn ásakaði Rauð
ástleysi sinnar ævi
sem færði honum heimsins auð
og flest veraldar æði.
Ríður nú reistum makka
Rauður og amma mín
guð hvað ég þér þakka
Það að hún er komin til þín.
Veiðilöndum nú vakir hjá
vötn og grundir tala
syngur í hófum syndlaus þrá
sólfextum dögum nú Rauð ala.
Ólafur H. Einarsson 2006
Ekki skal ég fyrir það sverja að ég hafi ekki heyrt viðlíka byrjun á ljóðinu áður, þannig hafa allar þessar 100 hestavísur ruglað mig í rýminu. Það er samt gaman að rifja þetta upp og annars undarlegt hvað tíminn líður hratt, þótt andartak sé síðan að ég las 100 hestavísur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2007 | 21:57
Dagur íslenskrar tungu verði 26. maí ár hvert
Dagur íslenskrar tungu er haldinn eins og flestir ættu að muna 16. nóvember. Það hefur verið lengi skoðun mín og trúlega fleiri að frekar ætti að halda upp á dánardaginn en fæðingardaginn. Þetta stafar af því að skólar eru að ljúka starfsvetri sínu og oft á tíðum er mikið los í starfi grunnskólans. Ekki er átt við þetta í neikvæðri merkingu. Þá eru dagarnir notaðir í vetfangsferðir o.s.f.v.. Væri ekki betra að skerpa á mikilvægi tungunnar í andrúmslofti vorsins með uppákomu sem væri því tengd. Ég læt spunameistarana um að fylla í eyðurnar. Náttúra landsins er að vakna af vetrardvala og farfuglarnir komnir til landsins. Bjarkirnar farar að teygja litla sprota inn í sumarið. Er ekki líklegra að við slíkar aðstæður mætti gleðja gamla náttúrufræðinginn betur, en við myrkur nóvembermánaðar.
Ég skora á þá sem fylltu reykmettað herbergi þegar þetta var ákveðið að skipta um skoðun og fá skólana betur inn í þetta starf í framtíðinni.
Herrans árið 1998 var fyrsti dagurinn sem var helgaður minningu Jónasi Hallgrímssyni og af því tilefni gerði ég dálítið ljóð á þeim tíma. Ég læt það fylgja með þessari hugleiðingu um íslenska tungu.
Dagur íslenskrar tungu
16. nóvember
Í dag er dagur íslenskrar tungu
og dauður ertu Jónas minn
á fjörukrá hér forðum ungur
með fjaðurpennann og hattinn þinn
þú lærðir þar ljóta siði
er lagði þig fyrir miði
göróttur var og göldrum búin
en gáfa þín var líka snúin.
Ljóðin þín líka eftir léstu
lofað sé þetta verk þitt
og þökk sé þjóð með festu
sem þekkir í þér verkið sitt
og kallar á þig í ákalli bragsins
að kenna og fræða vort mál
sem vonandi vekur aftur til dagsins
vonina að gleðja þína fornu sál.
Ólafur H. Einarsson 1998
Jónas andaðist í Danmörku 26. maí 1845. Blessuð sé minning hans.
Bloggar | Breytt 27.5.2007 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2007 | 12:45
Gamla Reykjavík og Árni Óla
Eftir að við hjónin höfðum skilað yngsta dregnum okkar í unglingabúðir um hvítasunnuhelgina þá fórum við í Góða hirðirinn. Ég hef aldrei komið þarna áður. Það var margt um manninn og alls konar hlutir sem eru nýtilegir aftur. Vissulega ánægjulegt að vita að hlutir sem við förum með í Sorpu að þeim sé komið aftur til gagns. Fljótlega rekst ég á bókahillur fullar af ódýrum bókum í mjög góðu ásigkomulagi. Þarna er hægt að ná í hina fjölbreyttustu titla. Hægt var að fá Íslendingasögurnar á kr. 300 st., Ragnheiði Brynjólfsdóttur tvö bindi bókin á kr. 200 st. Þarna er heilmikið af afþreyingar bókum. Konan mín fann t.d. bók sem mig hefur lengi langað að eignast eftir Árna Óla ,, Sagt frá Reykjavík " þá fékk ég mér bók eftir Thor Vilhjálmsson ,, Hvaðan er San Marino ".
Eftir að ég fór að glugga í fyrra í Íslenskt Mannlíf ( fjögur bindi ) vaknaði áhugi minn fyrir gömlu Reykjavík, öllu því margbreytilega manlífi sem fyllti bæinn og gerir enn. Ég man vel eftir greinum Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins um Reykjavík. Það var á þeim árum þegar ,,lesbókin" stóð undir nafni og til var Bæjarbókasafn Reykjavíkur, sem ég reyndar stundað nokkuð á þeim árum. Hins vegar las ég aldrei þessar greinar sem eru sjálfsgat óborganlegur fróðleikur um gamla tímann. Eiginlega var ég maður framtíðarinnar, en ekki innstiltur á það liðna. Þannig breytist maður, já er það ekki kallað að þroskast.
Ég er fæddur og uppalin í Þingholtsstræti og man nokkuð eftir gömlu Reykjavík. Götumyndin þegar Haukur pressari var að labba með þunga og stóra straujárnið í Lækjargötunni og sér Bjarni að taka ofan fyrir virðulegu fólki. Það var meiri ró yfir bænum í þá daga og það sem rauf helst kyrrðina voru flugvélar eins og DC 3 og ískrið í Kolakrananum þegar hann var á ferðinni. Ég hlakka mikið til að geta sökkt mér í þessa nýjustu bók mína um Reykjavík. Þá eru mjög skemmtilegar teikningar ( tússteikningar ) af húsum sem fylla enn betur upp í minnið um gömlu húsin okkar allra. Mig blóðlangar til að láta fylgja hér eina af þessum myndum með þessum skrifum, þá til að glæða áhuga ykkar er kunna að lesa þetta og viljið ná í bækurnar hans Árna Óla. Efst í huga mér er þakklæti til hans fyrir þessi skrif sem munu vera og eru bautasteinar í sögu borgarinnar.
Hér tel ég upp nokkra af bókum Árna Óla : Fortíð Reykjavíkur 1950. Gamla Reykjavík 1954. Skuggsjá Reykjavíkur 1961. Erill og ferill blaðamanns 1963. Horft á Reykjavík 1964 og loks Sagt frá Reykjavík sem ég hef nefnt hér að ofan. Þá Reykjavík fyrri tíma, þrjú bindi sem var gefið út af Skuggsjá 1984-'86. Þá má öruggt telja að nokkrir titlar liggi óbættir hjá garði í þessari upptalningu.
Fyrst ég er komin á flug með þetta þá læt ég hér fljóta með ljóð sem ég gerði um ,, Móðurást", en það er reiturinn hjá Miðbæjarskólanum; við Lækjargötu og Bókhlöðustíginn. Þarna áttum við krakkarnir margar yndisstundir. Þarna var leikvöllur þess tíma með sandkössum og öðru sem tilheyrir svoleiðis reiti. Móðurást heitir styttan sem er þarna og í þá daga var það heiti með sæmd. Nú er reiturinn orðin meiri lystigarður og allur grónari en var í þá daga.
MÓÐURÁST
Mitt í miðbæjarins erli
Móðurást oss varstu kær
varstu kannski vísbending í ferli
sem veröldin gleymdi í gær.
Styttan af þér steind í kopar
stendur áranna elfur geymd
minning mér í huga hopar
mæðist ásjóna eftirvill gleymd.
Börn bjástruð í þínum reiti
byggðu kastala og vegi
þá spurði engin um stöðu né heiti
störfuðu allir unz hallaði af degi.
Daglangir kossar dofnuðu fljótt
dagssetningar skyldu heim sóttu
nú er þar næstum allt hljótt,
aðeins niður umferðar fram á nótt.
Hvar er hláturinn og gleðiköllin
hlýju raddirnar sem saman sungu
eða þríhjólin sem geystust um völlinn
eins var um hjörtun ungu.
Í gær gaut ég að þér auga
grænleit ásjóna þín var
sennilega telur einhver mig spauga
spanskgrænan þig ofurliði bar.
Ólafur H. Einarsson 1978
Ég læt hér staðar numið að sinni, en fastlega má gera ráð fyrir að ég tali meira um gömlu Reykjavík og láti fylgja með ljóð mín um hana sem ég hef setið á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2007 | 22:19
Er boðlegt að fyrirtæki borgi fyrir blautar sögur með auglýsingum ?
Víkjum þá að hinum hópnum sem náð hefur miklu innlit á síður. Þar eru launaðir blaðamenn jafnvel ritstjórar á fullum launum. Þarf að greiða þeim fyrir skrif með auglýsingum sem gætu verið skrifuð í vinnutíma á virðulegu blaði. Eða jafnvel rithöfundar sem þiggja listamannalaun ég veit ekki, varpa þessu svona fram.
Það er vissulega erfitt að feta einstigi í þessum efnum, en burt með lágkúruna. Þetta framtak að greiða fyrir auglýsingar á blogginu er ekki slæmt í sjálfu sér, ég gæti alveg þegið það ef svo bæri undir ; en ekki fyrir lágkúruskrif.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 00:48
Ekkert blót á blogginu - áskorun
Skelfing er leiðinlegt allt blót og ragn. Fyrirsögn eins og Ingvi Hrafn ( Hrafnaþingsmaður ) og fleirri hafa verið með hér á blogginu. Mér finnst fólk setji niður þegar það viðhefur blót í fjölmiðlum almennt. Fyrir utan það þá særir það mig ( í trúarlegum skilningi ) og er vont fordæmi fyrir okkur öll, gagnvart börnunum okkar og barnabörnum o.s.f.v..
Tökum saman um það að úthýsa öllu blóti af þessum miðli og öðrum. Ég veit að við viljum ekki samfélag sem upphefur slík gildi.
Ágætu bloggara og aðrir landsmenn hættum að blóta og leggjum rækt við hin góðu gildi og fordæmi.
Bloggar | Breytt 24.5.2007 kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2007 | 18:33
Fólkið á Flateyri
Ég hef samúð með fólkinu á Flateyri. Það er dapurlegt að ræna fólki lífsviðurværinu og sjálfsvirðingunni. Þið ríku gæjar hvar er samfélagsleg skylda ykkar. Sláið saman í púkk og kaupið þetta allt. Sýnið nú að það eigi ekki að öfunda þá sem verða ríkir á Íslandi. Það er samfélagsleg skylda ykkar og réttlætingin fyrir því að hin frjálsu peningaöfl fái að blómstra áfram. Látið ekki almenning í þessu landi sjá að þið notið bara peningana til að kaupa, þotur, fótboltafélög, jarðir, bíla, stóreignir, erlend fyrirtæki til að halda uppi vinnu í útlöndum.
Fólkið á Flateyri hvort sem það eru íslendingar eða annarra þjóða fólk, þá höfum við öll skildu við það. Látum 100 blóm blómstra á Flateyri og komum fiskvinnslunni aftur í gang. Þetta eru smáaurar í vösum ykkar.
Bloggar | Breytt 22.5.2007 kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2007 | 22:06
Ást hatur samband
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2007 | 02:01
Sóla og Geiri að mynda stjórn......
Bloggar | Breytt 1.6.2007 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.5.2007 | 22:40
Ofþreyta á pólitík
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 23:22
Miðlægur vandi ára minna
Þegar ég var að verða fimmtugur svona fyrir nokkrum árum eða þar um bil fór ég að hugsa um þessi tímamót. Það hafði verið mikil umræða um stöðu konurnar og allt það. Við karlarnir sátum sem sneyptir hundar yfir öllu þessu óréttlæti sem við höfðum beitt konur í gegnum tíðina. Á leið minni út úr bænum fór ég að hugsa um þetta allt og þá varð til þetta ljóð sem hér kemur á eftir. Þá sá ég í huga mér hvernig líðan kynbræðra minna væri, hálf rislítið og lífið að fjara út. Þetta er í gamansömum tón með alvarlegu ívafi. Ég hef alltaf séð fyrir mér að Árni Tryggvason leikari myndi flytja þetta ljóð, enda var það að hluta til samið með þeim hrynjanda sem hann les. Ljóðið kalla ég Miðaldra.
Miðaldra
REQUIEM
Miðlægur vandi ára minna
er útlægur vandi hára minna
sálin er sjúk og lúin
sjálfur kroppurinn fúinn,
belgist til beggja hliða
svo brjóst ungra kvenna iða
andinn er ávalt reiðubúinn
þótt árans standurinn sé niðursnúinn
nema að hann snúi upp.
Þá er það blessað baslið
bíllinn ónýti og draslið
konan er löngu farin
líka var hún barin,
en börnin uxu úr grasi
Bergur, Sveinn og Þrasi
afglapans arfleiddi lyndið
alveg eins og erfðasyndin.
Löngu er ég hættur að skrifa
letina á ég fyrir að lifa
kötturinn og kaffidrykkur
er köllun mín og búhnykkur,
en sjónvarpið ég sit við lengi
sjálfa Gufuna ekki tengi
vona að lífinu vísast senn ljúki
viðundrið ég sjálfur fjúki
um himnana sjaldséðu sali.
Þá á ég þessa einu von
að hitta þann blessaða son
sem Jósef smiður kenndi
og séra Hallgrímur umvermdi
kærleika og Krists orðum
á Hvalfjarðarströnd hér forðum
og Gudda sem guðlausa Tyrki
gabbaði, ég þá um hana yrki
er sólin við himnahliðið hnígur.
En verst er að vita ei lengur
hvernig veröldin snýst og gengur
er sólroði fer um suðrænar lendur
og sár mín gróa og hendur.
Fer þá sá gamli góði mig að vekja,
mun hann þá mig aftur hrekja
í heiminn hans gamla láta
og gera mig að eilífðarskáta
sem hættur er alveg að kvarta.
Orð mín er óræðin ræða
sem ólmast í mér og hræða
hvern þann sem kann þetta að lesa
mig nú karlægan lúsablesa,
velta úr mínu vílaða fleti
þann voða, ég nefni ekki fretið
hrotur og hægða vandinn
þó háttstemmdur væri andinn
las ég Tolstoy og Dostzeviski.
Nábjargir fékk ég nánast engar
og munntóbakið sem mengar
nærði sálina illa
sem orsakaði útferð og kvilla,
en læknar mig löngum kvöldu
og liðagiktina í mér öldu
við Penisinlín og pilluátið
ég Postulasöguna hefði betur í mig látið
af öllum heimsins veigum.
Og svo er ég farin að leiða og kvíða
löstum og öðrum daglegum líðan
ég nenni ekki neitt út úr húsi
né öðru daglegu stússi,
en það er komin hér ný kona
sem kann um að búa og ég vona
að geti mig gamlan stutt
á vatnsalernið flutt
svo hætti ég annars staðar að losa.
Já mitt fúla en fjölgerða stúss
var frjókorn þess jarðar trúss
er ég batt í mínum móður kviði
þótt ég mannleysis braginn fyrir liði
frá minni fyrstu helgu tíð
þá herjaði hér stríð,
en blessuð sértu mín blíða móðir
er barst mig á norðurslóðir
og vötnin og fjöllin mér gafst.
Ólafur H. Einarsson 1998
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 00:37
Kiljan kom í heimsókn
Fyrir páska var ég að endurnýja kynni mín við ,,Sjálfstætt Fólk eftir Halldór Kiljan Laxness" Þetta er þriðja útgáfa sem ég las, 525 bls. Var þá rétt á undan búin að lesa Innansveitar Kronikuna. Ég var orðin nokkuð mettur af Kiljan og var farin að velta fyrir mér hvernig þessi texti myndi eldast. Unga fólkið og fleiri kvarta undan stafsetningunni. Þá er orðaforðinn ekki í takt við samtímann, en hvað með það. Það er allt í lagi. Eiginlega finnst mér best að lesa Njálu á forníslenskunni. En áfram með Kiljan. Bjartur í Sumarhúsum var mér hugleikinn og allt baslið hans. Þannig var ég að burðast með þennan texta í höfðinu dögum saman. Þá var ég var komin að þeirri niðurstöðu að þessi texti myndi eldast illa, hm... já.
Nú liðu nokkrir dagar í viðbót og þá gerðist það sem er dálítið skrítið. Mig fer að dreyma skáldið. Draumurinn var á þessa leið. Ég er heima hjá mér sitjandi við tölvuna í herberginu þar sem ég hef afdrep við að skrifa ofl.. Þá finnst mér að komi fólk inn á ganginn við herbergisdyrnar. Þetta voru fjóra persónur. Allt í einu heyri ég að Kiljan talar til mín ( með sínum talanda) og segir ,, Hér partast þú í þessu herbergi" og ég eiginlega fór hálfpartinn að hlæja með sjálfum mér.
Það gat enginn orðað þetta svona nema Kiljan, á þennan hátt. Ég hugsaði með mér að auðvita var þetta rétt því að þetta er bara herb. sem ég sýsla mér í til afþreyingar. Þannig ver ég bara hluta af lífinu hér. Skáldið var sem sagt í heimsókn hjá mér og að láta mig vita af sér.
Eftir á að hyggja þá passið ykkur sá gamli er enn á ferðinni ef þið farið að argast út í skrifin hans og Hannes Hólmsteinn hann hlýtur að sofa lítið á nóttunni. Þannig ætla ég að lesa áfram Kiljan og reyna að sættast við hann, það er aldrei gott að skattyrðast við stórskáld, munið það.Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2007 | 22:14
Sumarástin komin
Stundum skortir mann orð til að geta komið því sem maður upplifir í rökrétt samhengi. Þannig er mér nú varið . Ég skrifaði smá pistil um Steindepilspar fyrir tveimur dögum, þar sem ég sagði frá kynnum mínum af þeim í klettum nálægt þar sem ég bý. Eins og ég lýsti var ég orðin vonlítill með að sjá sumarástina mína og tregaði það mjög. En vegir ástarinnar eru órannsakanlegir og stundum óvæntir. Þar sem ég sat við kvöldmatarborðið og horfi út um gluggann, þá gerðist það Steindepillinn flaug rétt framan við gluggann eins og hending kast.
Ég þaut út í stofugluggann og greip kíkirinn og viti menn það leyndi sér ekki sumarástin mín var komin að vitja óðals síns. Hjartað hamaðist í brjósti mér, þetta var ekki skinvilla.
Það var mikil ást í lofti og ég mátti ekki vera að því að horfa á upphaf kosningasjónvarpsins. Parið fallega átti alla athygli mína. Þau flugu upp að því að virtist lóðrétt upp og steyptu sér síðan niður á jörðina. Flugu upp og líkast var að þau flygju á brjóst hvors annars sem endaði með miklum eltingarleik um kletta og steina hér fyrir utan. Þetta var á góðu máli íslenskir vorleikir í yndislegri náttúru.
Ég hlakka til að eiga margar og ánægjulegar stundir með þessum vinum mínum í sumar. Það sem er undalegast við alla þessa sögu er að líkast til er sem almættið hafi lesið hugsanir mínar og ef til vill bænheyrt mig. Steindepillinn settist reyndar ekki á steininn sinn sem hann fer vanalega í kvöldsólarbað á, en mændi í kvöldsólina lengi og skoðaði umhverfið í leiðinni. Mikið var það fallegt sjón sem er greipt í huga minn að horfa á ástina mína sem vitjað hafði óðals síns. Með lotningu horfði hann á hina ungu íslensku sumarnótt fullur auðmýktar og að fá lifa enn eitt ævintýrasumarið. Ég á þá ósk líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 00:39
Hvað varð um þig fagri fugl
Síðustu kvöldin hef ég setið við stofugluggann. Mundað kíkirinn og horft á jökulrispuðu grágrýtis klappirnar hér skammt frá. Ég er að bíða eftir Steindepil, yndislega kvikur fugl sem fellur vel inn í klappir og grýtt landslag. Reyndar eru klappirnar hér með hvítum Skófum og jafnvel rauðlituðum, sem gerir það að verkum að blessaður fuglinn dylst eins vel og náttúran hefur klætt hann. Þetta byrjaði fyrir tveimur árum, varð eins konar sumarást. Það var kvöld eitt að hann settist á svalahandriðið hjá mér. Gulleit bringan gerði fuglinn leyndardómsfullann. Var þetta nýr flækingsfugl sem ég kannaðist ekki við ? Nei þetta var þekktur fugl um allt land, þvílíkur græningi var ég. Næsta dag fór ég að svipast eftir honum og sá mér til mikillar gleði að Steindepillinn var farinn að huga að hreiðurgerð í klettunum. Þannig varð það og allt sumarið fylgdist ég með honum. Þegar kvöldsólin roðaði vesturloftið tilti hann sér oftast fremst á stærsta bjargið í klettunum. Sperrti fram bringufjaðrirnar eins og hann væri að hleypa yl sólarinnar að sér. En einmitt þá varð hann hvað fallegastur. Bringufjaðrirnar urðu gulli slegnar í kvöldsólinn og aldrei hef ég séð fallegri fugl hvorki fyrr né síðar. Ég held að það sé ástin sem blindar mig eða skildi það vera. Þannig horfði ég á hann þar til mig verkjaði í hendurnar og gúmmíið á sjónaukanum var farið að særa augnlokin.
En núna hefur ekkert bólað á honum og ég er farinn að halda að ég sé búin að tapa ástinni minni. Það hafa komið nokkur kvöld síðustu daga þar sem kvöldsólin hefur litað allt umhverfið dulúð og fegurð, en Steindepillinn minn er hvergi sjáanlegur. Það er einhver beygur í mér og ég trega sumarástina mína, maður verður svo sjaldan ástfangin í lífinu og hver töpuð ást skilur eftir tómarúm sem erfitt er að fylla í. Þannig er þetta núna aðeins minningin sem heldur mér við gluggann og vonin að fuglinn fagri vitji aftur jökulrispuðu klappirnar þar sem krækilyng og bláber eiga skjól milli steina.
Bloggar | Breytt 13.5.2007 kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 17:17
Gamlar og nýjar hugrenningar um vorið
12. apríl 2005.
Ég sit hérna og það eru 50 metrar í stofnbrautina þar sem umferðin yðar allan daginn. Horfi á trén og grasið sem er að vakna undan vetri. Krókusar kíkja upp úr moldinni og blöð Túlipna og Páskaliljanna er græn og þróttmikil. Moldin í beðunum er rauðsprungin og úfin, en lífvana. Þá kemur þessi skógarþröstur og horfir á mig. Ég horfi á hann og við ákveðum að þetta geti verið í lagi. Hann hoppar um grasið horfir í svörðinn og síðan á mig. Hvað ertu að gera hérna heyri ég rödd frá honum. Ég trúi varla mínum eigin eyrum, en svara samt. Nú líklega að fanga vorið svara ég svona til að segja eitthvað.
Trúir þú á þetta vor segir þrösturinn. Eftir stutta þögn svara ég. Eiginlega ekki. Já ég vissi það svarar hann, þess vegna er vorið ekki komið. Ég er vorið og nú fer ég og kem aftur eftir 10 daga eða eftir næsta norðan áhlaup. Fuglinn hefur sig til flugs og skýst á milli greinanna og hverfur síðan. Ég hef setið hér síðustu daga, en vorið lætur lítið á sér kræla. Þrestirnir sem fljúga um garðinn við stofnbrautina brosa af mér, því ég trúi ekki enn á þetta vor, en það kemur víst að lokum og matartíminn er liðinn.
15. apríl 2005
Póesía dagsins er lífið ástin, kærleikurinn og allt það. Annars skín sólin og allt er bjart og fagurt, eiginlega skil ég ekki hvað ég er að fara með þessu. Hvaða máli skiptir það svo sem þegar öllu er á botninn hvolft. Sólin skín og ég veit að það eitt skiptir máli. Ég klíp sjálfan mig svona til að vera viss um að ég sé til, öðru hvoru og minni mig stöðugt á að þegar ég vaknaði í morgun þá var ég ekki til.
16. apríl 2005
Ég líð eftir Vesturlandsveginum á 80 km hraða og er farþegi í bíl. Eins og í ljóði lít ég til hliðar í áttina að skógræktinni í Hamrahlíð. Augun skotra í leiðinni á hitaveitustokkinn sem ber milli skógræktarinnar og Hamrahlíðarinnar þar sem þenslustykkin eru falin, undir steinsteyptum stokknum. Ofar við himnasýn er þungbúinn skýjabakki, með slútandi regndropum sem hamastvið að hanga í festunni sem bindur skýin saman. Skyndilega festast augun við fyrsta fífil sumarsins, útsprunginn með 5 blómkrónur. Blöðin græn og fersk hlaðin orku vorsins sem enn er ekki vakið. Gul blómkróna blómanna æpir út í vorið, flýtið ykkur annars missið þið af þessu öllu hér hraðbrautar draugar og blikkbeljur.Ég á tímann og tíminn á mig hér í hlíðinni, í þenslustykkinu sem falið er í stokknum.
Bloggar | Breytt 15.5.2007 kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)