30.7.2007 | 13:27
Bréfberinn í Lækjargötu
Það var á köldum marsmorgni að ég var að bíða á umferðarljósum í Lækjargötu. Stóð með Stjórnarráðið í bakið. Handan götunar var kona á miðjum aldri með kerru á hjólum merkta Pósturinn. Þarna var á ferðinni póstútburðarmaður trúlega á leiðinni í Þingholtin að bera út póst. Sólin roðaði morgunloftið og frostið skar í andlitin. Myndin frá þessu augnabliki sat í mér og varð kveikjan að ljóðinu hér á eftir.
BRÉFBERINN Í LÆKJARGÖTU.
Ég er pósturinn í bænum
og passa að bréfin komist í skil,
ég hugsa í hálfkveðnum ljóðum
um öll hjörtun sem í borginni eru til.
Sorgir og sæla fundi
og svefndrukkin hús,
ég er póstur í bænum
og passa því illa sem slík
en prísa mig sæla að vera hér í Reykjavík.
Með harm í hjarta ég fer,
ég hlusta á borgarkliðinn.
Fæ mér að borða, póstinn minn út ég ber;
en best mér líður við umferðarniðinn.
Á köldum og hvössum morgnum
ég kyssi ljóðin mín með stjörnum,
flónsku dagsins ég fel öllum sorgum
föllnum mönnum og hálfvöxnum börnum.
En hvað hlýtt mitt hjarta er
og hljóð fara augun mín að gjóa
að því sem fyrir ber.
Flest er þar fjarrænt og grátt
og fólkið líkara vofum,
er svífa á svefndrukkinn hátt
sjálfumglöð full af eigin lofum.
Yfir eigin ágæti og voða
ég ævinlega vil það skoða.
Samt er ég sólarbarn
og sérhvern geisla ég geymi.
Er vetur næðir um veðurbarið hjarn
ég vorið ætíð um dreymi,
að komir þú Kristur og ég sem barn
kyssi náð þína frá þessum heimi.
Mig verki ei mjöðmum mínum í
né kuli á bréfsins höndum,
en beri ég þá aðeins bréfin þín;
með blessaðar bænir og öndum.
Ólafur H. Einarsson mars 2002.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Ljóð, Menning og listir, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Breytt 22.8.2007 kl. 17:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.