Reykjavíkurtjörn og gamlar minningar

IMG0790Reykjavíkurtjörn, það er sem færist ró yfir mig  þegar ég hugsa þangað.  Ég á margar minningar um veru mína þar.  Þótt alltaf sé verið að tala um að allar minningar séu baðaðar sól og góðu veðri, þá á það ekki við hér.  Vissulega var það líka svo, bograndi með matarsiktið að heiman að veiða hornsíli.  Glerkrukka með afklóruðum miða frá sultugerð Vals og fönguðu hornsílin í triltum dansi í krukkunni.  En vetrarásjónan er mér hugleiknari.  Mörg voru kvöldin sem ég skautaði á fínu Hokkí skautunum mínum, í algerum draumi.  Rökkurljósið af ljósastaurunum sem gaf umhverfinu dulmagnaða birtu og gleðihljóð barnanna í bland.  Tíminn var endalaus, en samt endaði það að jafnaði þannig að kuldinn hafði betur.  Það voru oftast þung spor að fara heim. Hálf lamaður af kulda, en aldrei var hægt að gefa sig fyrr en svona var á komið.  En heimferðin var svo sem ekki lögn upp í Þingholtsstræti.

Þá voru það hlýju hendurnar hennar mömmu sem færðu líf í kroppinn aftur.  Sitjandi á eldhúsvaskinum með fætur ofan í emileruðu vaskafati til að fá líf í fæturna aftur.  Þessu næst var andlitið þvegið, hárið greitt og svarti kollurinn glansaði.  Heita kakóið, já það var eins og maður fyndi það renna um æðarnar fyrst út til handanna og kol af kolli.  Höfgi lagðist yfir mig og öll þreytan sem hafði gleymst í leikjum dagsins kom yfir eins og holskefla.

Gamli dívaninn var fljótur að skila mér inn í draumalöndin.  Þannig voru þessir dagar og margir í minningunni. 

Ljóðið sem hér fylgir er fátækleg mynd af þessari tilveru, en fangar vonandi einhvern.

 

 

Reykjavíkurtjörn

 

Þú tjörn tendruð kvöldsins roða

titrandi báran brotnar við stein

táravatn allra andans goða

almennings óskalaug um betri heim.

 

Þar endur með öðrum einatt búa

einmenningar þar of um ráfa

flugvélar og aðrir farkostir um fljúga

fagurgljáfægðir bílar ríkar páfa.

 

Svo sofnar þú fagra tjörn

en svanir syngja um þinn draum

Krían sem kokreiðst hefur við börn

kápu sína hylur egg á laun.

 

En snöggt sem sofna þín yndi

og sælan umlykur þína sál

vaknar borgin búin sínu lindi

börnin helst af öllum skilja það mál.

 

Dag í þínu lífi þekkjum öll

þrekmiklir Stekkir berjast um völd

brauði er þar deilt og barnaköll

bragðbæta lífið fram á kvöld.

 

Á vetrum þú veitir og gleður

vetraríþróttir gáfu þér gildi

og stoltir standa ungir feður

starandi á börn sín fullir yndi.

 

Þú tjörn tendruð dagsins óð

tilveru okkar þú byggðir

við vorum börn og þú varst okkar ljóð

en vissum ekki um allar þínar dyggðir.

                       

                           Ólafur H. Einarsson 1975.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég man eftir samskonar skautadögum þegar maður skautaði frá morgni til kvölds orðinn helblár af kulda. Gaman að lesa minningarnar og  ljóðið um Reykjavíkurtjörn er virkilega fallegt

Rúna Guðfinnsdóttir, 7.6.2007 kl. 09:11

2 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Yndislegar minningar   og ljóðið líka. 

Marta B Helgadóttir, 8.6.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband