Færsluflokkur: Ljóð
25.8.2007 | 22:53
Fallegasta sveit landsins
Það þarf engan að undra enda er þetta fallegasta sveit landsins. Ég á margar góða minningar þaðan. Gabríela Kafka við kvikmyndagerð í Vatnsdal við tökur á Vatnsdælasögu skv. fréttinni á mbl.is.
Séð frá Másstöðum.
Álkugil. Vegurinn á myndinni liggur fram á Grímstunguheiði.
Vatndalshólar.
Vatnsdalsáin liðast áfram skammt frá Hofi.
Ég held að myndirnar tali sýnu máli.
Enn kemur einhver einn
allir þekkja róminn
friðarengill hjarta hreinn
Húnvetninga sóminn.
Þekki ekki höfund ( gæti verið Björn Blöndal )
![]() |
Kvikmyndað í Vatnsdalnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt 1.9.2007 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2007 | 23:11
Friðvænlegur heimur í flugvélum ?
Hérna um árið þegar Rússarnir voru hér upp á hvern dag með sprengjuflugvélar varð þetta ljóð til.
Friðvænlegur heimur
Á Atlashafsálum atgeira brýna
áhangendur stríða að skapa frið
gráir fyrir járnum gapa og rýna
grandalausir menn sér biðja grið.
Ólafur H. Einarsson 1975 - '80
Blessaðir kallarnir eru byrjaðir aftur.
![]() |
Rússneskar vélar í íslenskri lofthelgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 01:00
Snæfellsnesjökull og fallegu kvöldin núna í águst
Nú þegar kvöldin eru roðuð af kvöldsólinni og Snæfellsnesjökull skartar sýnu fegursta þá er eins og loftið verði dulmagnað. Eins konar galdur í loftinu. Það er farið að læðast að manni að það sé farið að líða vel á þetta annars einstaklega góða sumar. Krækilyngið er orðið svart og bláberin komin með sinn rétta lit, en dálítið súr enn. Ég man ekki sérlega vel hvernig haustið var 1998, en trúlega hefur verið svipuð kvöldsinfónía þegar ég samdi ljóðið hér á eftir.
Snæfellnesjökull
Hvað roðar jökul á rauðu lofti
og rökkurljós í húsum inni,
hvar breiðist blámans sorti
á breiðu djúpi í flóans minni
Hvað ljær þér línur blárra fjalla
um loftsali skýja og valla
hver vakir í veröld okkur alla
og veit ekki að ég er að kalla
Hvað meitlar þig mánans skini
mildar og gerir þig að vini
sem þekkir tár og trega minn
og treystir mér þá ég hann finn
Hvað lofar þér lofsöng slíkan
ljóðslist, frelsi og þrá
hver vekur þér vellíðan líkan
værðarvoð guðs að ná
Hvað bindur þig blómanna mál
boðar eilífð í fjallsins skál,
hver gaf þér guðlegan sal
sem glepur og drepur allt tal
Hvar er sú viska sem af þér gengur
sögur og galdrafár,
hver vill þína vegferð lengur
voröld og skálda tár
Hvar á tungunni að tæmast öl
tilfinningar, rótleysi og lofgjörð,
hér endar allt einsmanns böl
eilíflega við þinn svörð.
Ólafur H. Einarsson 1998.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.7.2007 | 10:47
Rauntíma verðsamanburður og verðlagseftirlit – ný nálgun

Rauntíma verðsamanburður, er það gerlegt ? Nútíminn er flókið fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. Hann krefur okkur til að gera verðsamanburð og leita hagstæðustu kjara, þar sem við lifum á tímum frjálsrar álagningar og í samkeppnissamfélagi. En er gerlegt fyrir venjulegt fólk að taka þátt í því ? Við erum hvött áfram af auglýsingum og þarfir okkar búnar til í versta falli. Tíminn er líka dýrmætur og einhvern veginn verður hann enn dýrmætari eftir því sem árin líða. Þannig er það líka, alla vegna hjá venjulegu fólki. Er skynsamlegt að vera að keyra á milli verslana til að bera saman verð á hangikjötsáleggi eða öðrum vörum til að kaupa hagstætt inn. Nei að sjálfsögðu ekki, nema þegar um dýrari vörur er um að ræða, en þá kemur væntanlega fleira til en verðið eitt saman.
En er þá þetta svokallaða frjálsa samfélag að virka ( frjáls álagningin ) ? Já, er svarið og verður auðvita það, - svona á pappírunum. Þú getur keyrt í Kópavoginn til að fá 30 aurum ódýrara bensín o.s.f.v. sem auðvita er engin sparnaður í, aðeins í versta falli brandari því það kostar meira að keyra bílinn þangað en sem nemur sparnaðinum.
Verðlagseftirlit stéttarfélaga ( Alþýðusambands Íslands ) og annarra sem sjá um þessa hluti er líka hálfgerður brandari. Verði er breytt daginn út og daginn inn í sömu verslunum. Jafnvel auglýstar vörur í blöðum og dreifibæklingum, eru ekki á því verði þegar maður kemur til að kaupa það ( þetta hafa trúlega margir reynt ). Þannig er hin venjulegi maður varnalaus gagnvart tölvuvæðingunni sem orðin er í samfélaginu, sem breyta verðlaginu með ljóshraða. Öll hlaupin geta því orðið tilgangslaus eða tilgangslítil. Þá er algengt að örfá stykki af vörunni eru bara til sem auglýst er og þannig notuð til að laða að kaupendur, sem grípa síðan í tómt.
En hvað er til ráða ? Ég er þeirrar skoðunar að koma verði upp netsíðum og sem safna saman verðlagi og bera saman verðlag. Æskilegt er að verkalýðshreyfingin fari fram í þessum efnum. Hagsmunir launþega verða á næstu áratugum hvað varðar verðlag, miklu stærra hagsmunamál, en sú hagsmunavarsla sem stéttarfélögin standa fyrir í dag. Ekki þarf endalaust að vera að semja um lengri orlofsrétt o.s.f.v.. Þannig verða stéttarfélögin hálfgerð verðlagslögga til að tryggja kaupmátt umbjóðenda sinna.
Ég sé fyrir mér að semja verði við atvinnulífið og löggjafann um að fyrirtæki á markaði birti vöruverð og verðlag á þjónustu á netinu. Þannig er hægt að bera saman verð einstakra vöru og sýna þróun verðs til hækkunar eða lækkunar. Verðlagseftirlit í dag skilst mér vera fólgið í því að fólk er sent í verslanir og skráir verð vöru með þar til gerðum tækjum ( tölvur eða skráð á blað ).
Hér er lítið dæmi til glöggvunar. Bónus, Hagkaup, Krónan, Nóatún, o.s.f.v. birta á vefum sínum verðin t.d. á innfluttri baunadós af tilteknu vörumerki ( sem fæst í all flestum búðum sem selja matvöru ). Á verðlagssíðu Alþýðusambandsins getur þú valið vöru í undirflokkum t.d. baunir. Þar er gerður samanburður á þessum verðum. Fundið hæsta og lægsta verðið. Jafnframt verður að gera þá kröfu að seljendur ( matvöruverslanir í þessu dæmi ) birti með vöruverðinu hvaða álagning er á vörunni. Þannig virkar það hvetjandi að eðlileg álagning kom fram og neytandinn geti áttað sig á hvar græðgin er við völd ef svo má að orði komast.
Þá er hægt að taka saman matkörfu (ur) og finna út hagstæðustu innkaupin og versla þannig hagkvæmt. Þetta er með öðrum orðum að tölvutækninni verði beitt í þágu neytenda og almennings. Forskoti tölvutækninnar er snúið við og nýtt almenningi í hag, en ekki bara stórfyrirtækum sem ráða nú þar öllu. Þetta er einfaldlega verðlagslögga 21. aldarinnar netið sjálft, framkvæmt í rauntíma ( jafnóðum og verð birtast ).
Um endalausa möguleika er að ræða með þess háttar verðsamanburði. Til þess að þetta verði mögulegt verður að nást sátt um þessa leið. Það er hægt að gera í kjarasamningum, með löggjafanum, en umfram allt í sátt allra, sem munu þegar fram í sækir verða öllum til hagsbóta.
Mjög líklegt er að verðhjöðnun verði samfara þessum breytingum. Ef til vill lækkun matvöru, sem nokkuð lengi hefur verið beðið eftir. Ég vil hvetja launþegahreyfinguna og atvinnulífið til að skoða þessa leið í næstu kjarasamningum, í því er fólgin launahækkun ef vel tekst til. Trúlega verður erfitt að semja um miklar launahækkanir í komandi kjarasamningum í ljósi þenslu og spennu á vinnumarkaði. Jafnframt er þetta hvatning til verklýðshreyfingarinnar að snúa sér að nýjum áherslum, enda þótt verðlagseftirlit þeirra sé við líði - eiginlega nýjar áherslur í þeirri vinnu. Besta kjarabótin er að hér verði verðhjöðnun samfara öflugu atvinnulífi og vinnumarkaði, þar sem samningar og lög eru virt í hvívetna.
Þá vil ég taka fram að þessi pistill er á engan veginn eingöngu til að fjalla um verlagssamanburð á matvöru, þetta á við um nánast alla vöru og þjónustu. Ekki hvað síst opinbera þjónustu þar sem um er einhvers konar samkeppni að ræða. Rauntíma vöktun og upplýsingagjöf er öllum til hagsbóta og til hagræðingar. Til að mynda verðlag þjónustu og vaxtakjör bankanna. Reyndar birta þeir það á heimasíðum sínum, en það sem á vantar er rauntíma samanburður sem sóttur er á einn stað ( upplýsingasíðu ).
Mjög líklega kallar þetta á mikla forritunarvinnu og öllu öðru sem tengist þessu viðfangsefni, bæði kostnaðarlega og að umfangi. Nú þegar verja verkalýðsfélög og samtök atvinnulífsins miklum peningum og tíma í þess háttar vinnu, einungis vantar samþættinguna í einni veitu.
Þá fær t.d. verkalýðshreyfingin ( ASÍ ) á fjárlögum einar þrjár miljónir til verðlagseftirlits á þessu ári ef ég hef tekið rétt eftir.
Nýlega opnaði vefsíðan Eyjan.is svokallaðan RSS gagnastraum. Þar er safnað saman upplýsingum af öðrum vefsíðum ásamt efni sem þeir leggja til sjálfir. Þannig er gerlegt að halda úti upplýsingasíðu ( síðum ) sem miðla ákveðnum upplýsingum ( t.d. fréttir, blogg o.s.f.v. ) á tiltölulega ódýran máta án þess að rekin sé fréttastofa og að baki sé mikil yfirbygging.
Á sama hátt getur verlagseftirlit Alþýðusambands Íslands verið eða annarra sem vildu taka að sér þetta svið. Eina sem verður að tryggja er eins og ofan sagði að gagnagrunnskerfin verði opnuð ( verðlagshlutinn ) hjá þeim sem veita og selja þjónustu til almennings. Til þess þarf ný viðhorf og löggjöf. Þá þarf að tryggja í löggjöf að verð sem sett er fram við opnun verslunar eða á annars konar þjónustu hvern dag, standi til lokunar sama dag. Verðbreytingar geti ekki orðið meðan. Verðbreytingar eiga sér stað eftir lokun. Gagnvart aðilum sem veita þjónustu allan sólarhringinn þá skal miða við miðnætti.
Ég er bjartsýnismaður í eðli mínu og tel að þetta verði helsta breyting á samfélagi okkar á næstu árum, til hagsbóta fyrir almenning í þessu landi hvað varðar verðlagsaðhald. Þetta eru einfaldlega ný viðhorf sem ég set hér fram.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2007 | 13:27
Bréfberinn í Lækjargötu
Það var á köldum marsmorgni að ég var að bíða á umferðarljósum í Lækjargötu. Stóð með Stjórnarráðið í bakið. Handan götunar var kona á miðjum aldri með kerru á hjólum merkta Pósturinn. Þarna var á ferðinni póstútburðarmaður trúlega á leiðinni í Þingholtin að bera út póst. Sólin roðaði morgunloftið og frostið skar í andlitin. Myndin frá þessu augnabliki sat í mér og varð kveikjan að ljóðinu hér á eftir.
BRÉFBERINN Í LÆKJARGÖTU.
Ég er pósturinn í bænum
og passa að bréfin komist í skil,
ég hugsa í hálfkveðnum ljóðum
um öll hjörtun sem í borginni eru til.
Sorgir og sæla fundi
og svefndrukkin hús,
ég er póstur í bænum
og passa því illa sem slík
en prísa mig sæla að vera hér í Reykjavík.
Með harm í hjarta ég fer,
ég hlusta á borgarkliðinn.
Fæ mér að borða, póstinn minn út ég ber;
en best mér líður við umferðarniðinn.
Á köldum og hvössum morgnum
ég kyssi ljóðin mín með stjörnum,
flónsku dagsins ég fel öllum sorgum
föllnum mönnum og hálfvöxnum börnum.
En hvað hlýtt mitt hjarta er
og hljóð fara augun mín að gjóa
að því sem fyrir ber.
Flest er þar fjarrænt og grátt
og fólkið líkara vofum,
er svífa á svefndrukkinn hátt
sjálfumglöð full af eigin lofum.
Yfir eigin ágæti og voða
ég ævinlega vil það skoða.
Samt er ég sólarbarn
og sérhvern geisla ég geymi.
Er vetur næðir um veðurbarið hjarn
ég vorið ætíð um dreymi,
að komir þú Kristur og ég sem barn
kyssi náð þína frá þessum heimi.
Mig verki ei mjöðmum mínum í
né kuli á bréfsins höndum,
en beri ég þá aðeins bréfin þín;
með blessaðar bænir og öndum.
Ólafur H. Einarsson mars 2002.
Ljóð | Breytt 22.8.2007 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2007 | 12:08
Árþúsundamót og Lögberg á Þingvöllum
Þar sem ég hef nokkuð fjallað um Þingvelli að undanförnu er ekki úr vegi að láta hér inn ljóð frá mér sem ég samdi í byrjun ársins 2000. Árþúsundamótin voru þá eða ekki þá, ætla mér ekki að rifja upp þá deilu. Þetta er aldamótaljóðið mitt og uppgjör við gengna tíð.
Árþúsundamót 2000
Liðin er öld ljósa og tölvunnar
loks eru hjörtun tæmd
bið ég öllum blessun ölvar
brátt er vor tunga rænd,
gengin er gleði og stríða
gnyð fer tímans Hrímey
vaki allra gnægð, vont þá líða
völur mikli við himnanna fley.
Reiðir hver hönd rétti að lifa
ríklyndur en gáfu efinn
lögin sem land vort hrjóstrugt skrifa
löghlýðni skal ei efa gefin,
spyrja má þá skammrar vorar æfi
skálmöld er vor gengin tíð
voru morð og vígöld okkar hæfi
viskan ein, hvað batt þessi stríð ?
Nóg hafa líka masað og talað
niðjar okkar á þessari öld
orð þeirra hafa orðgnótt malað
orðumprýddir sem fara með völd,
hin góði hógværi maður
helg er þín stund og fas
liðin er öld og ljósmiðla glaður
lokar tækið fyrir heimsins þras.
Hollt er ei vort heimsins fæði
héðan fara vor aldarhvörf
mikilvæg er vor menntun og klæði
morgunverkin við árþúsunda störf
því Lögberg er, sem ljóðsið glæði
löng er þessi ganga í heimi,
nýrri skal öld með náttúruæði
nyrsta land það um dreymi.
Lýðræðið enn sína löngu göngu
leiði tímann fram á braut
þar sem hjarta vort og tími þraut.
Ólafur H. Einarsson 2. jan. 2000.
ölvar: gætin við vini sína gnyð: mögla Hrímey: Ísland ríklyndur: stórhuga
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2007 | 13:49
Af galdrastrákum og Harry Potter

Mikið var gaman að fá að vera þátttakandi í því að kaupa Harry Potter bókina. Hér á bæ er ungur maður af Harry Potter kynslóðinni, sem að sjálfsögðu átti pantaða bók hjá Nexus á Hverfisgötunni. Vorum mættir um ellefu leitið og þar var dúndrandi bókaveisla. Brugðum reyndar á þann leik að fara ekki alveg strax í röðina.
Það var undarlegt þegar við ókum niður Laugarveginn. Ungt fólk brosandi með poka í hendinni, nýbúið að fanga bókina eftirsóttu. En á hinn bóginn var drukkið fólk og slagandi með bjórdósir eða eitthvað viðlíka í hendinni. Ég hugsaði hvað ég væri lánssamur að eiga heilbrigðan ungan mann sem hafði áhuga á galdrastráknum Harry Potter.
Við vorum komnir um tólfleitið í röðina og það gekk bara vel að afgreiða bókina dýrmætu. Það var samt einhver ósvöruð spurning um þetta galdrafólk sem var mætt á staðinn. Þarna hafði greinilega verið mikil stemming. Alla vega gáfu veisluföngin það til kynna.
Oft er talað um bókaþjóðina miklu og lestur almennt. Af þessu að dæma þarf ekki að örvænta hvað það varðar. Gaman hefði samt verið að bókin hefði verið á ástkæra ylhýra málinu, eða er þetta bara gott ( alþjóðavæðingin ) alla vega þarf maður að tala orðið nokkuð mikið á ensku. Maður fer á hjólbarðaverkstæði, bakarí, bókabúð og yfirleitt alstaðar þarf maður að bregða fyrir sig hinum ýmsu málum sem maður hefur á takteinum.
Eftir situr samt þessi gamli efi ( lífsreynslan ) er þetta bara allt auglýsingamennska eða raunverulegur gleðigjafi í lífshlaupinu.
Ungi maðurinn á heimilinu vakti frameftir í nótt. Það var erfitt að vakna í morgun og það er búið aftur að loka herbergishurðinni. Undalega hljótt inni hjá unga manninum.
Þetta er eiginlega vissan fyrir því að eftir alla auglýsingamennskuna og umstangið að þetta er góð viðbót í daglega lífið okkar, eiginlega gleðigjafi.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2007 | 01:56
Þingvallanefnd á villigötum - ekki saga niður trjálundina
Veit eiginlega ekki hvernig mér líður eftir fréttina frá Þingvöllum. Þar er þingkjörin nefnd sem fer með allt vald, ásamt þjóðgarðsverði og starfsfólki. Hvernig getur það verið að slík nefnd hafi það verksvið að láta sag niður margra áratuga gömul tré, sem voru gróðursett með góðum hug og trú á íslenska skógrækt ?
Ég get skilið að það þurfi að grisja skógarlunda og þekki það vel, en fella tré niður vegna annarra hluta skil ég ekki; allra síst á þessu svæði. Rökin eru þau að á hluta af rústaminjum eru tré. Ef grafa á upp rústirnar má taka eitt og eitt tré, ekki ráðast á allan reitinn. Þá er elsti hluti skógarins friðaður og markar upphaf skógræktar á Íslandi.
Þá hefur það heyrst að það geti stafað af ósk okkar að koma svæðinu inn á heimsminjaskrá, en það hefur verið borið til baka. Engin krafa er um að fella tré vegna þess.
Þetta er eins konar gróður fasismi og óraunhæfar hugmyndir um Þingvelli.
Öll tré sem hafa verið gróðursett á Þingvöllum eiga að fá að standa þar. Svæðið yrði fátæklegra ef trjágróðurs nyti þar ekki við. Náttúrulegi birkiskógurinn er yndislegur eins og hann er og tré sem ég er að tala um í þessu spjalli eiga aðeins við um þessi sem hafa verið gróðursett á liðnum áratugum við Almannagjá.
Þá er verið að tala um að rífa hótelið af eldvarnarástæðu. Líklega er það rétt, en hús eru ekki rifin vegna þessa heldur er gerð brunatæknileg hönnun á húsinu og það hólfað niður í eldvarnarhólf o.s.f.v..
Er þá ekki næst að fjarlægja allt malbik og afmá veginn. Fólk verði að ganga inn á svæðið og koma helst ríðandi. Því næst að fjarlægja þjónustumiðstöðina. Hún var ekki þar þegar Alþingi var stofnað.
Þingvallanefndin er á villi götu. Ég geri þá kröfu að birt verði þessi áætlun um grisjun á netinu þannig að það fari ekki milli mála hvað er verið að tala um.
Hvar er allt þetta náttúruverndarfólk núna sem hefur verið að berjast við Kárahnjúka og ganga í þúsundum með Ómari Ragnarsyni.
Mér er nær að halda að Þingvallanefndin eigi að segja af sér. Það er ólíðandi að þingkjörin nefnd hagi sér á þennan hátt. Þá er ljóst að nefndina verði að skipa með öðrum hætti sem er trúlega efni í annan pistil. Þá vil ég að lokum segja að ég er ekkert sérlega hrifin af því að kom Þingvöllum á þessa umræddu skrá. Þetta mun leiða til meiri átroðnings á svæðinu og kalla á margs konar mannvirki og afgirtar brautir á svæðinu. Friðhelgi Þingvalla verður best varðveitt með því að halda því sem vel varðveittu leyndarmáli fyrir heiminum.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.7.2007 | 23:05
Ekki hægt á fljúga Páli Sveinssyni til landgræðslu vegna peningaskorts
Ég vil vekja athygli á grein í Morgunblaðinu laugardaginn 14. júlí ´07 sem nefnist
,, Vorboðinn ljúfi þagnaður" Þar lýsir Jón Karl Snorrason því að ekki hafi fengist peningar til að dreifa áburði með flugvélinni Páli Sveinsyni í ár. Eins og flestum ætti að vera kunnugt hefur flugvélinni verið flogið í sjálfboðavinnu á liðnum árum.
Í niðurlagi greinarinnar segir. ,, Skilum landinu árlega 1.000 tonnum af áburði úr Páli Sveinsyni og höldum þessari sögufrægu flugvél á lofti fyrir komandi kynslóðir og tryggjum vor- og sumarkomu með tilkomumiklu hljóði hreyflanna sem hafa yljað svo mörgum undanfarin 34 ár".
Það er raunar dapurlegt í þessu ríka landi, þar sem allir eru að kolefnisjafna allt milli himins og jarðar að ekki hafi verið tryggt fé til að sinna þessu sjálfsagða máli. Jón Karl kennir þar um áhugaleysi fv. landbúnaðarmálaráðherra Guðna Ágústsyni sem er í senn dapurlegt, enda er maðurinn orðinn formaður í Framsóknaflokknum.
Því vil ég eins og Jón Karl Snorrason sem er flugmaður og áhugamaður um landgræðslu hvetja alla sem vilja láta sig málið varða að koma þessum málum í lag, sérstaklega nýjum ráðherra Einari Guðfinnssyni.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.7.2007 | 23:15
Svanahjónin í Gufudal

Gufudalur í austur Barðastrandasýslu er fallegur dalur sem þrengir sér inn á milli hárra fjalla. Um dalinn liðast Gufudalsáin lygn bergvatnsá. Lengst af var þar friðseld og rólegheit hvað varðar veiði í ánni. Ég var þeirra gæfu njótandi að geta veitt þarna í all mörg ár. Venjulega var fyrsta ferðin síðustu vikuna í júlí. Þarna er nokkuð vatn ( Gufudalsvatn ) sem speglar fjöllin á kyrrlátum kvöldum og dögum. Oftast svaf ég í tjaldi, sem gat orðið nokkuð vindasamt þegar hann reif sig upp í næðing. Birkivaxnar hlíðar eru þar með fjölbreyttum gróðri. Sjaldan hef ég sé jafn þrifaleg lömb að hausti og þar í sveit.
Í hólma við vatnið var svanapar sem helgaði sér vatnið og var í fullkominni sátt við okkur veiðimennina, sem gáfum hjónunum það rými sem þau þurftu. Þegar liðið var á sumarið var farið í æfingarflug með ungana. Það var tignarleg sjón þegar þau flugu lágt yfir vatninu og ungarnir í humátt á eftir. Dalurinn ómaði af söng þeirra og ekki skemmdi einstaklega fallegt kvöld.
Með þessa mynd greypta í hugann, varð úr kveikjan að ljóðinu hér á eftir.
Svanahjónin í Gufudal
Vængsláttur og vorhamin hamingja
villtra svana í dal
gleði ástar og glæstra vona
guðleg svölun í fjallasal,
myndir sem voru svona
þær flugu mærðar daga
gleðinnar göfugustu laga.
Við búskapinn yzt
í búhólmanum unnust
bóndinn og freyja hans,
börnin þar komust blessuð
til búfarar og manns;
þvílík gleði þar messuð
í þar gerðu kvaki söng
sem varði sumarkvöldin löng.
Ólafur H. Einarsson 1982
Ljóð | Breytt 9.7.2007 kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þingvallanefnd (síðast kosið 13. júní 2007).
Kosning sjö alþingismanna og jafnmargra varamanna í Þingvallanefnd, til upphafs næsta þings, skv. 2 mgr. 2. gr. laga nr. 47 1. júní 2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Aðalmenn: Björn Bjarnason, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Bjarni Harðarson, Lúðvík Bergvinsson.
Varamenn: Birgir Ármannsson, Björk Guðjónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson.
Eins og sjá má af þessu eru bara pólitíkusar í þessari nefnd. Nær væri að nefndin væri skipuð bæði fagfólki og áhugafólki um náttúruvernd. Ég vil sjá fornleifafræðing í nefndinni, skipulagsfræðing, umhverfisfræðing. Menntaða skógfræðinga, sagnfræðing o.s.f.v. Össur er líffræðingur það er ágæt viðbót við þessa upptalningu. Eiginlega á þetta að vera fagnefnd frekar en gælunefnd pólitíkusa. Alþingi getur skipað þannig fólk í nefndina, en formaður getur verið tilnefndur af Alþingi sem pólitíkus ef þurfa þykir.
Þingvallanefnd á að vera óháð fagnefnd og starfa sem slík.