Færsluflokkur: Dægurmál

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár !

Óska þeim er lesa bloggsíðu mína og bloggvinum árs og friðar.  Læt með ljósmyndir frá áramótum.

HPIM1349

 

Einnig  hér fylgir gamalt ljóð um áramótin, frá mér sem ég gerði um ármótin 1975-76.

 

Áramótakveðja

 

Árs og friðar árna ég

árin heilla líða

veraldarinnar vandratað fé

vegsemda erfitt að bíða.

 

Trú og tilbeiðsla göfgi þig

tárin gullnu dvína

þá er þroski eflist við

þrautir hverfa og pína.

 

Lifðu svo lengi og vel

láttu andann vaxa

bróðurhug já bræðraþel

bæti allar heimsins axa.

 

      Ólafur H. Einarsson 1975

axa = axarsköft   HPIM1362

 

 

 

 

 

Skotið í rokinu

 

 

 

 

 Álfar áttu líka sín áramót.

HPIM1378

 

 


Gleðileg jól

Óska ykkur öllum Gleðilegra jóla og þakka ykkur mörgum sem hafa

heimsótt bloggsíðu mín á liðnum mánuðum.  Megi friður og kærleikur

jólanna fylgja ykkur.  Guð blessi ykkur öll !

 

 


Veiðisögurnar hans Bubba Morthens - nýja bókin

scan0003

 

Nýlega var mér gefin bókin hans Bubba Morthens með langa bókartitlinum : Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð.  Þegar ég heyrði fyrst af þessari bók þá skellti ég í góminn, hvernig ætli kappinn sé á ritvellinum ?  Nú, eftir að ég eignaðist bókina, lagðist ég yfir hana og ég verð að segja að hún kemur á óvart.  Þá er rétt að taka fram að ég er með ólæknandi veiðidellu líkt og höfundurinn. 

Bókin er mjög skemmtileg, stuttar sögur með ljóðrænum texta; nákvæmlega eins og mér finnst að það eigi að vera.  Það er nefnilega ljóðrænt að vera að veiða við ár eða vötn í okkar blessaða landi.  Ég hef orðað það þannig að verða drukkinn af landinu.  Þetta er held ég líka að sé  upplifun Bubba Morthens, á hans hátt.  Þetta eru fallegar náttúru upplifanir og skemmtilegar sögur af fólki og veiðifélögum höfundar. 

Fyrir þá sem enn halda að veiðimennska sé bara ómerkilegt dráp þá ætti þessi bók að opna augun fyrir því gagnstæða.  Ég held að bókin skilji ekki við neinn ósnortinn og hreint út sagt er hún yndisleg.  Það er því við hæfi að óska Bubba til hamingju með þessa bók.  Það er aðeins ein saga í þessari bók sem mér finnst ekki ríma í þessum ljóðræna stíl.  Silja Aðalsteinsdóttir er ritstjóri bókarinnar og er það trúleg styrkur verksins að hún er þar með.

Ég vil hvetja Bubba Morthens til að skrifa meira í þessum stíl, fleiri veiðibækur.  Eftir að ég hafði lesið bókina var ég með heitstrengingar, um að hnýta mikið af flugum og nota veturinn betur til að vera undirbúin fyrir næsta sumar.  Af þessu leiðir að bókin hefur virkað á mig.  Þá vil ég ráðleggja þeim sem lesa bókina, af minni reynslu að lesa svona tvær sögur í einu.  Þetta er eins og eiga konfektkassa og fá sér einn og einn mola til þess að hann endist lengur.

Bókin er að ég held mjög góð gjöf hvort tilefnið eru jól, afmælisdagur eða annað til að gleðja aðra.  Hún einfaldlega er áfram í huganum og lofar komandi veiðisumar.  Náttúrulýsingar og einlægni er styrkur bókarinnar og ef einhver hefur ást á viðfangsefninu þá er það hin eini sanni Bubbi Morthens.  Til hamingju með bókina.


Dagur íslenskrar tungu 16. nóv.

 

Jónas Hallgrímsson

Dagur íslenskrar tungu er haldinn eins og flestir ættu að muna 16. nóvember.  Það hefur verið lengi skoðun mín og trúlega fleiri að frekar ætti að halda upp á dánardaginn en fæðingardaginn.  Þetta stafar af því að skólar eru að ljúka starfsvetri sínu og oft á tíðum er mikið los í starfi grunnskólans.  Ekki er átt við þetta í neikvæðri merkingu.  Þá eru dagarnir notaðir í vetfangsferðir o.s.f.v..  Væri ekki betra að skerpa á mikilvægi tungunnar í andrúmslofti vorsins með uppákomu sem væri því tengd.  Ég læt spunameistarana um að fylla í eyðurnar.  Náttúra landsins er að vakna af vetrardvala og farfuglarnir komnir til landsins.  Bjarkirnar farar að teygja litla sprota inn í sumarið.  Er ekki líklegra að við slíkar aðstæður mætti gleðja gamla náttúrufræðinginn betur, en við myrkur nóvembermánaðar.  

Ég skora á þá sem fylltu reykmettað herbergi þegar þetta var ákveðið að skipta um skoðun og fá skólana betur inn í þetta starf í framtíðinni.

 

Herrans árið 1998 var fyrsti dagurinn sem var helgaður minningu Jónasi Hallgrímssyni og af því tilefni gerði ég dálítið ljóð á þeim tíma.  Ég læt það fylgja með þessari hugleiðingu um íslenska tungu.

 

 

Dagur íslenskrar tungu

16. nóvember

 

Í dag er dagur íslenskrar tungu

og dauður ertu Jónas minn

á fjörukrá hér forðum ungur

með fjaðurpennann og hattinn þinn

þú lærðir þar ljóta siði

er lagði þig fyrir miði

göróttur var og göldrum búin

en gáfa þín var líka snúin.

 

Ljóðin þín líka eftir léstu

lofað sé þetta verk þitt

og þökk sé þjóð með festu

sem þekkir í þér verkið sitt

og kallar á þig í ákalli bragsins

að kenna og fræða vort mál

sem vonandi vekur aftur til dagsins

vonina að gleðja þína fornu sál.

 

            Ólafur H. Einarsson 1998

 

Jónas andaðist í Danmörku 26. maí 1845.  Blessuð sé minning hans.  

Þessi færsla var birt 26. maí s.l.


Haustþræðir

 HPIM0609

Vegna margra velunnara síðu minnar vil ég láta að vita af mér, en vegna veikinda og sjúkrahúsvistar hafa ekki verið færslur á síðuna frá því í byrjun sept. s.l.  Ég vil þakka þeim sem líta inn og skoða gamlar færslur fyrir þolinmæði og áhuga.  Þar sem enn um sinn verður frekar litið að gerast á síðunni set ég inn gamalt ljóð frá mér um haustið.  Það nefnist Haustþræðir.

 

Haustþræðir

Þá leið þetta sumar

og söngurinn góði

því það lofaði reyndar allt,

en skyndilega hvarf það

og aftur var kalt;

mófuglar horfnir

en morgunsvalinn andaði stríður.

 

En rósin í garðinum

draup höfði sínu

er austan slagregnið

teygði runnans greinar

og haustið lagðist að

í garðinn og sálina,

en purpuralitaður himininn

málaði síðasta vanga sumarsins.

                       Ólafur H. Einarsson 1979

 

 


Aðalstræti 10 endurbygging til sóma - rómantík í miðbænum

HPIM3227

 

Fyrir skömmu var ég á ferðinni í Aðalstræti í Reykjavík og var að skoða húsin sem Minjavernd hefur verið að endurgera og byggja ný.  Ég fór að skoða nýlega opnaða húsið að Aðalstræti 10 sem var hluti af Innréttingum Skúla Magnússonar landsfógeta, en talið er að húsið hafi verið byggt 1762.  Þetta er samt eitthvað á reiki ef ég man rétt svo ég vitni i Árna Óla hin eina sanna. 

 

Það er gaman að sjá hvað hægt er að gera þessi gömlu hús glæsileg þótt að þau hafi verið byggð trúlega af vanefnum.  Ljóst er að hvar sem maður skoðar, endurspeglar handverkið að hér hefur verið unnið að alúð.  Minjavernd eignast húsið til ráðstöfunar næstu 35 árin, en af þeim tíma liðnum fær borgin húsið aftur til sín. 

HPIM3220 

Á neðri hæð hússins er Reykjavíkurborg með sýningar og kynningarrými.  Efrihæð hússins ( undir súð ) er aðstaða fyrir Handverk og hönnun.  Inni er líkan af Grjótaþorpi og ljósmyndir mjög forvitnilegar.  Einstaklega gaman að staldra þar við og hverfa aftur í tímann við dempað ljósið í loftinu.

 

Byggt er við húsið að aftan ( inni í lóðina ) nýtt lítið hús og er það tengt saman með glerbyggingu sem tekist hefur mjög vel að fella að þessu gamla húsi og gefa því tilfinningu um opið rými.  Hurðin inn í rýmið gefur þessu virðulegan blæ.  Ég vil endilega hvetja sem flesta til að skoða þetta og njóta.  Þá er Íslenska hönnunarverslunin með fallega muni til sölu.  Því miður hafði ég ekki tíma til að skoða það nánar, en langar til að fara fljótlega aftur og skoða þetta enn betur.  Sjón er sögu ríkari.

HPIM3221

 

 

 

 

 

Ljóst er að þessu húsi hefur verið sýndur einstakur sómi með endurgerðinni.  Ekki skemmir að vita að þetta verður vonandi aldrei aftur ölduhús þar sem hin görótti drykkur er viðhafður.  Ég held að þetta hús hafi verið í bráðri eldhættu þegar rekinn var þarna ölstofa eða hvað það var kallað.  Loks vil ég óska öllum sem að þessu hafa komið og gert þetta að veruleika til hamingju með einstaklega vel heppnað verk.  Framtíðin mun lofa verkið enn frekar og ætti að vera öllum þeim sem hamast við að tala um að rífa gömul hús í bænum til áminningar.

 

HPIM3222

 

 

   Gaman að sjá hvernig þakljórarnir falla að þaki   hússins.


Lokum fyrir þverun Lönguhlíðar á Miklabraut

Minni á bloggfærslu mína um að koma í veg fyrir þverun Lönguhlíðar á Miklabraut.

http://ofansveitamadur.blog.is/blog/ofansveitamadur/entry/311399/

 

 


mbl.is Umferðartafirnar hefjast stundvíslega klukkan 7:40
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokum fyrir þverun Miklubrautar um Lönguhlíð - umferðaröngþveitið

Langahlíð

 

Umferðarteppan á morgnana á Miklubraut hefur verið talsvert til umræðu í fjölmiðlum undanfarið af skiljanlegum ástæðum.  Ég er einn af mörgum sem er að keyra í röðinni niður í bæ þetta á 15 - 40 km hraða og stundum hægar.  Af skiljanlegum ástæðum er ég orðin þeirrar skoðunar að loka verði fyrir þverun á gatnamótum Lönguhlíðar ( sjá mynd ). 

Með þeirri aðgerð væri búið að losa stífluna sem er aðallega á þessum gatnamótum.  Þannig væri viðstöðulaus umferð frá horni Kringlumýrar og Miklubrautar niður að ljósunum hjá Umferðarmiðstöðinni. 

Því vil ég skora á umferðaryfirvöld í Reykjavík að skoða þennan möguleika.  Stærsti flöskuhálsinn á Miklubrautinni er á þessum gatnamótum, en umferðin sem kemur af sunnaverðri Kringlumýrarbraut safnast frá gatnamótum Lönguhlíðar upp að gatnamótunum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar.  Þegar ljósin kvikna fyrir umferð niður Miklabraut stoppa nánast allt vegna þess að þessi spotti ber ekki fleiri bíla. 

Með því að loka fyrir þverun á Lönguhlíðinni mun umferð verða miklu greiðari.  Trúlega verður þetta til óþæginda fyrir marga, en göturnar bæði norðan við og sunnan við Lönguhlíð verða miklu rólegri húsagötur eftir þessa breytingu og geta skapað meira næði þar á kvöldin þegar umferð minnkar.

 

Lokum fyrir þverun á Lönguhlíð og losun um umferðarstífluna.


Glæsileg verðlaunatillaga um deiliskipulag í Kvosinni

HPIM3132Fimmtudaginn 6. sept. s.l. voru kynntar verðlaunatilögur úr samkeppni um deiliskipulag í Kvosinni.  Ég er sérstaklega ánægður með verðlaunatillöguna og get ekki annað en hrósað Hönnu Birnu og Vilhjálmi borgarstjóra með að hafa valið þessa tillögu.  Hún fellur mjög vel að þeim hugmyndum sem ég hef viljað fara með uppbygginu á þessu svæði þ.a.s.e.g. varðveita sem mest mynd húsanna þarna.  Auðvita eftir bruna verður ekkert eins og áður og ný hús bera væntanlega mynd af því.  Sérstaklega hugnast mér að hugmyndin um að flytja gamla Biskupshúsið í Lækjagötuna.  Hinsvegar tel ég það ekki þjóna neinum tilgangi að flytja húsið frá Árbæjarsafni, enda gerir tillagan ráð fyrir að byggja eina hæð undir húsið og lyfta því. 

 

Miklu nær er að teikna nýbyggingu sem notar ytra útlit og húsgerð og byggja á staðnum.  Það er einfaldlega ódýrara, sem gefur götunni aftur þennan gamla svip. 

 

Lækjargata 4 var reist árið 1852 það var þýskur timburmaður, G. Ahrentz sem byggði það.  Helgi biskup Thordarsen keypti húsið og var húsið síðan nefnt eftir þetta Biskupshús eins og ég man eftir.  Þess vegna er túnið nefnt Biskupstún sem ég held að sé að gleymast þar sem styttan af Séra Friðrik er og taflið fræga frá vinstri meirihlutanum ( 1978 ef ég man rétt ).  Lækjargata 4 var meðan Helgi biskup bjó þar eitt mesta og virðulegasta höfðingjasetur í bænum.  ( Heimild Sagt frá Reykjavík, Árni Óla bls. 54 - 57 ). 

 

Ég vil hvetja Margréti Harðardóttur arkitekt og hópinn allan sem vann að þessari tillögu til að skoða vel þann möguleika að reisa þarna nýtt hús og í gömlum anda.  Húsið er orðið gróið í Árbæjarsafni og á sinn tilverurétt þar nú og erfitt að slíta það upp enn eina ferðina.  Sjáið hvað vel hefur tekist til með húsin í Aðalstræti eins og Fjalaköttinn. 

HPIM3200

Þá er að sjá að opna eigi lækinn aftur að hluta og setja tré með götunni.  Þetta getur orðið mjög skemmtilegt og á eftir að gefa götunni nýja ásýnd.  Reyndar vantar á að kynna tillöguna fyrir alm. enda þótt það hafi verið gert í fjölmiðlum mjög vel.  Ég vil geta skoðað þetta með eigin augum, enda gerði ég mér ferð í Ráðhúsið í dag en þar var ekkert í þá veru.

Þegar þessi hugmynd var sett á koppinn hafði ég mínar efasemdir um keppnina og var hræddur um að fallið yrði í þá gryfju að byggja gler steinkumbalda í anda ofvitans ( Iðuhúsið ) í Lækjargötu. 

 

Eins og þetta blasir við nú þá er ég mjög sáttur við þessa útkomu og ég hlakka til að fylgjast með áframhaldinu.  Það eru spennandi tímar framundan með þennan bæjarhluta og vonandi er að verða vitundarvaknig fyrir því að varðveita gömul hús aftur.


Kynjamyndir í Almannagjá á Þingvöllum

HPIM2818b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í síðustu viku var ég á fallegum degi á Þingvöllum.  Gekk niður Almannagjá og rakst á þennan steinrunna víking í berginu.  Hann var með hrút á baki.  Langspilið trónir upp.  Þá ber hann steðja og físibelg.  Hjálmurinn hangir niðri.  Kallinn er vel hærður og horfir í norður að ég held.  Alltaf er hægt að sjá út kynjamyndir í íslensku landslagi.  Langar að kynna ykkur fyrir þessum risa.  Annars veit ég ekki hvað þessi tiltekni staður er kallaður.  Ég tel rétt að nefna hann Ólafur víkingur fyrst ég var fyrstur til að finna kallinn eftir þúsundir ára.


 Myndin hér að neðan sýnir hvernig þetta lítur svona fyrir venjulega skynjun.

 

HPIM2818

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband